Thursday, August 26, 2010

Uppáhalds

Þetta er mjög erfitt verkefni þar sem ég þjáist af alvarlegum valkvíða, en ég ætla að skella inn einhverjum myndum sem gætu talist sem uppáhalds. Þeim verður ekki raðað eftir því hver mér finnst best af þeim, heldur verða þær bara í handahófskenndri röð.

Lost in Translation
Það er eitthvað við þessa mynd sem er virkilega heillandi. Fyrsta myndin sem ég sá eftir Sofia Coppola var The Virgin Suicides, sem mér fannst mjög góð, en þegar ég sá Lost in Translation varð ég ennþá hrifnari af verkum hennar. Það skemmir ekki fyrir myndinni að Bill Murray og Scarlett Johansson fari með aðalhlutverkin, en það sem mér fannst flottast við hana var tónlistin og hvernig tónlistin hjálpar manni að komast inn í tilfinningar persónanna. Þetta er frekar dramatísk mynd sem fjallar að miklu leyti um mannleg samskipti, en mér finnst það mjög áhugavert efni.

Seven
Þessi mynd inniheldur besta kvikmyndaplott sem ég hef séð. Hún var sjúklega spennandi og fékk mann til að hugleiða ýmisleg siðferðisleg gildi og að hugsa heimspekilega. Morgan Freeman er í miklu uppáhaldi hjá mér og leikur Brad Pitt kom mér eiginlega á óvart. Það er flest frekar ógeðfellt og drungalegt við þessa mynd, líka lúkkið, en samt eru svo miklar pælingar á bakvið allt að maður gæti aldrei haldið fyrir augun eða hætt að horfa. 

Howl´s Moving Castle
Þetta er uppáhalds Miyazaki myndin mín, en Spirited Away er ekki langt frá því að vera það. Tónlistin spilar aftur stórt hlutverk í þessari mynd og söguþráðurinn er mjög fallegur og allt lúkkið líka. Uppáhalds persónan mín er talandi eld-djöfull sem Billy Crystal talar fyrir og lífgar hann mjög upp á myndina. Söguþráðurinn og boðskapurinn eru frekar barnalegir og einfaldir en ná því að verða fallegir og áhugaverðir í stað þess að verða asnalegir og pirrandi.

Moon
Sá þessa mynd á síðustu kvikmyndahátíð Græna ljóssins í Regnboganum. Kannski hefur það hvað ég hef mikinn áhuga á stjörnufræði og tunglinu að þessi mynd er á þessum lista, eða þá að þetta var með síðustu myndunum sem ég sá í gamla góða Regnboganum. Allavega þá voru mörg alveg sjúklega flott skot af tunglinu og jörðinni í geimnum í myndinni og tónlistin byggði enn og aftur upp sérstaka stemningu. Plottið er líka gott, og söguþráðurinn er að vissu leyti ádeila á stórfyrirtæki, t.d. hversu lítils virði líf fólks eru fyrir þeim. Mér fannst Moon frekar óhugnanleg, bara tilhugsunin við það að vera aleinn á tunglinu lætur mig fá gæsahúð og maður skilur vel þegar Sam fer að missa sig, og hefur mikla samúð með honum.

The Princess Bride
Ákvað að setja inn eina gaman/ævintýramynd til að gera þetta fjölbreyttara. Húmorinn í þessari mynd höfðar fullkomlega til mín og ég hló næstum alla myndina. Söguþráðurinn er skemmtilegur og þó svo að hann sé frekar dæmigerður þá eru alls konar litlir auka hlutir sem gera myndina skrýtna, öðruvísi og að því sem hún er. Persónurnar eru flestar litríkar og skemmtilegar og halda myndinni vel uppi.

Aðrar myndir sem ég gæti alveg eins verið hér í staðinn fyrir þessar eru t.d.:
Amélie, Spirited Away, Grave of the Fireflies, The Virgin Suicides, The Shawshank Redemption, Eternal Sunshine of the Spotless Mind, Donnie Darko, Little Miss Sunshine og fleiri.