Thursday, October 21, 2010

Heimildamyndirnar

Sierra Leone's Refugee All Stars
Myndin fjallar um hljómsveit í Gíneu, þar sem allir meðlimir eru flóttamenn frá Sierra Leone, en þar geisaði borgarastyrjöld frá 1999-2002. Þau hafa öll lent í miklum hremmingum, misst fjölskyldumeðlimi, útlimi og í raun flest sem þau áttu. Einn meðlimur hafði meira að segja þurft að berja sitt eigið barn til bana, annars hefði hann verið drepinn og líklegast barnið hans líka. Mér fannst það frekar mikið ógeðslegt, og get í raun ekki alveg gert mér grein fyrir því hversu hræðilegt það er. Þau eru jafn ólík og þau eru mörg en eru tengd sterkum böndum og eiga það sameiginlegt að vilja gera tónlist og vilja breiða hana út til fólksins síns í flóttamannabúðum til að fá þau til að hugsa um eitthvað annað en stríðið og hræðilegar aðstæður þeirra. Einn meðlimur sagði einmitt að þegar hann væri að spila tónlist, tæmdist hugurinn og hann gleymdi stríðinu í bili. Einn meðlimur hljómsveitarinnar, Black-Nature, er líklega á aldur við mig og mér fannst mjög áhugavert að sjá einhvern á mínum aldri í þessarið aðstöðu, af því að ég get kannski mest samsvarað mig honum. Mér fannst þetta mjög áhugaverð mynd, og flott hvernig hún fjallaði ekki beint um stríðið en kom samt fullt inn á það í gegnum hljómsveitina. Þau voru skemmtilegir karakterar og gaman að fylgjast með þeim.


Kids + Money
Þessi fjallaði um krakka og unglinga í L.A. og viðhorf þeirra til peninga, og veraldlegra eigna. Þau voru bæði fátæk, rík og mitt á milli. Flest þeirra voru á þeirri skoðun að það skipti miklu máli að vera í réttu fötunum og versla í réttu búðunum til að öðlast viðurkenningu annara í skólanum. Þau sögðu að á göngunum í skólanum væru þau "skönnuð" af öðrum nemendum og ef þau væru ekki rétt klædd væri litið á þau með fyrirlitningar svip og líklega hefði þetta áhrif á félagslíf þeirra. Sum þeirra eyddu kannski 80.000 kr í föt á mánuði, en voru í vinnu og unnu fyrir þessari eyðslu, á meðan öðrum fannst sjálfsagt að foreldrar þeirra borguðu öll þessi föt og allt það, jafnvel þó svo að þeir hefðu eiginlega ekki efni á því. Ein stelpan var algjör frekja og leiðinleg, og fannst hún vera með feit læri og eitthvað þó svo að hún væri sjúklega mjó og hún var bara 11 ára eða eitthvað fáránlegt. Hún átti yfir 30 pör af gallabuxum, og hún og systir hennar skömmuðust sín fyrir mömmu sína af því að hún var ekki í kjörþyngd og sjúklega falleg og í geðveikt flottum merkjavörufötum, og mömmunni leið illa yfir því, sem er frekar fáránlegt. Þessi mynd var líka áhugaverð og skrýtið að sjá hvað sumir eru veruleikafirrtir. 


Pirrandi stelpan og systir hennar

Please Vote for Me
Þessi var kannski frekar langdregin, en samt áhugaverð. Hún fjallaði um bekk í grunnskóla í Kína, held að krakkarnir hafi kannski verið 7-9 ára, þar sem átti að kjósa bekkjarráðsmann með lýðræðislegri kosningu og þremur frambjóðendum, einni stelpu og tveimur strákum. Þau héldu ræður og það var hæfileikakeppni og þau spurðu líka hvert annað spurninga um hvernig þau myndu stjórna og fleira. Foreldrar þeirra hjálpuðu þeim mikið í kosningabaráttunni og komu með alls konar "trick" til að láta þau fá fleiri atkvæði og undir lokin var þetta farið að verða eins og alvöru kosningar, þar sem lygar, svik, mútur, niðurlæging og fleira koma í ljós. Að lokum vann strákurinn sem mútaði bekknum mest, en hann gaf þeim einhverja gjöf og ókeypis ferð í einhverri lest eða eitthvað svoleiðis. Hann var frekar strangur en mér líkaði einhvern veginn best við hann af því að hann sagði að hann vildi að krakkarnir hugsuðu fyrir sig sjálf en létu ekki aðra segja sér hvað þau ættu að gera, á meðan hinn strákurinn vildi stjórna þeim. Sá strákur minnti mig pínu á gamlan, spilltan stjórnmálamann. Stelpan var svo frekar saklaus eitthvað, bjó hjá einstæðri móður og það var gefið í skyn að hún fengi ekki jafn mikla hjálp heima í kosningabaráttunni út af því.



 



Wednesday, October 13, 2010

Food Inc - heimildarmynd

Food Inc er heimildarmynd sem ég sá á kvikmyndahátíð Græna ljóssins í vor og hafði frekar mikil áhrif á mig. Leikstjóri hennar er Robert Kenner sem skrifaði einnig handritið ásamt Elise Pearlstein og Kim Roberts.
Myndin fjallar sem sagt um matvælaiðnaðinn í Bandaríkjunum og hversu mikið hann hefur breyst síðan um miðja 20. öldina, þegar sífellt meiri áhersla var lögð á skyndibita. Myndin sýnir okkur sem sagt skuggahliðar iðnaðarins, allt frá því hversu illa er farin með aumingja dýrin og verkamennina sem vinna í iðnaðinum, til þess hversu skaðlegur maturinn er orðinn okkur þar sem allt snýst um að framleiða sem mest á sem stystum tíma fyrir sem minnstan pening. Viðtöl eru tekin við verkamenn frá Mið-Ameríku og sagt frá erfiðri stöðu þeirra, það er illa farið með þá í vinnunni og þeim borgað allt allt of lítið en samt geta þeir ekki gert neitt í sínum málum því þá verða þeir bara sendir heim til sín þar sem þeir eru flestir ólöglegir innflytjendur. Sem sagt fyrirtækin spara sér fullt af pening með því að vera með þá vinnu og borga þeim lúsarlaun, og taka þarf fram að þeir hafa engin réttindi, eru ekki í neinu verkalýðsfélagi eða neitt, því ef þeir kvarta eru þeir bara reknir.


Dýramisnotkunin sem var sýnd í myndinni hafði svakaleg áhrif á mig og ég var alvarlega farin að pæla í að verða grænmetisæta eftir þetta, það hefur ekki gerst enn, en það kæmi mér ekki á óvart ef það myndi gerast á næstunni. Mynd af stórum akri með mörgum kúm á færiböndum á leið í verksmiðju er oft sýnd og lét mér líða frekar illa, en það sem var eiginlega verst var þegar talað var um meðferðina á kjúklingunum. Mig minnir að það hafi verið heimsótt tvö kjúklingabú, eigandi annars þeirra hafði látið undan kröfum stórfyrirtækisins Tyson Foods Inc að mig minnir, og hafði látið setja einhvers konar plötur á veggina að utanverðu þannig að ekkert sólarljós komst inn eða ferskt loft. Ég vil taka það fram að hann leyfði ekki myndatöku inni í búinu, þar sem það gæti haft slæmar afleiðingar fyrir hann, sem sýnir kannski hvernig aðstæður eru þar og hversu mikil ítök þessi viðbjóðslegu stórfyrirtæki hafa. Hinn eigandinn var kona sem ekki hafði látið segja sér að gera þetta og því höfðu fuglarnir hennar það aðeins betra. Bændurnir verða að gera það sem stórfyrirtækin krefjast því að annars verslar enginn við þá og þeir fara á hausinn, en allar þessar nýjungar kosta sitt og því lenda flestir bændur í svaðalegum vítahring. Um nóttina var svo njósnað um þegar menn komu að ná í kjúklinga, og virðingarleysið var svo mikið að þeir spörkuðu bara í hálf-dauða kjúklinga eins og ekkert væri, og létu það ekkert á sig fá þó svo að þeir görguðu af sársauka.

Þessi mynd segir svo allt sem segja þarf um hina ljótu hliðina á kjúklingakjötsiðnaðinum.

Í myndinni var líka viðtal við konu sem hafði misst son sinn úr E. Coli sýkingu eftir að þau höfðu borðað á einhverjum veitingastað nokkrum dögum áður. Þar er fjallað um hvað það er allt of mikið af sýktu kjöti í umferð og hvað reglur um matvæli eru ekki nógu strangar í Bandaríkjunum. Málið er bara að fyrirtækin hafa mikil ítök innan þingsins. Konan reynir ásamt móður sinni að ná tali af einum þingmanninum, og tekst það að lokum, en hún er að reyna að koma í veg fyrir að aðrir látist af sömu ástæðum og sonur hennar. Þetta sýnir okkur betur hversu mikil áhrif þetta hefur allt á bara venjulegt fólk og maður hefur mikla samúð með henni. 

Tyson að reyna að "friða samviskuna" og fá fleiri kaupendur eftir slæma umfjöllun.


 Myndin fer líka inn á kornræktun í Bandaríkjunum og hversu lítið við vitum í raun og veru um það hvernig maturinn okkar er framleiddur. T.d. eru á matvælaumbúðum oft myndir af einhverjum stórum bóndabýlum umkringd grænu grasi sem á allt að sýna okkur hversu heilnæmt og beint frá bónda maturinn er, en í lang fæstum tilvikum er það rétt. Maturinn er fullur af gerviefnum til að auka rúmfang hans, og í staðinn fyrir að hverfa aftur til fortíðar með framleiðsluna til að losna við vont bragð eða aukaverkanir, er bara fleiri efnum skellt í matinn, og oft án þess að fullnægjandi rannsóknir hafi verið gerðar, vegna þess að það er ÓDÝRARA.



Einnig er komið inn á eitt af helstu vandamálum Bandaríkjanna, þ.e. fátækt vs. offita. En eins og flestir vita er óhollur matur í flestum tilvikum ódýrari en hollur, og sagt er frá fjölskyldu sem kaupir frekar hamborgara heldur en ávexti, einfaldlega vegna þess að þeir eru ódýrari og matarmeiri. Þau hafa ekki efni á hollum og góðum mat, þar sem pabbinn er sykursjúkur, sem er samt sem áður engin tilviljun þar sem hann hefur ekki verið að borða hollan mat, en þau verða að eiga pening fyrir lyfjum fyrir hann og ná að metta fjölskylduna.

Fjölskyldan umrædda

Við fengum líka að kynnast lífrænni ræktun, bæði á grænmeti og dýrum, og fengum að sjá hversu mikil munur er á slátrunaraðferðum og hvað aðferðir lífrænu bóndanna voru mun mannúðlegri. Bóndinn á býlinu sem var heimsótt var mjög sterkur og skemmtilegur karakter sem lífgaði upp á myndina. Kannski fannst mér þessi mynd svona áhugaverð af því að ég hef mikinn áhuga á mat, dýravernd og umhverfismálum en mér finnst að sem flestir ættu að sjá hana, því hún virkilega fær mann til að hugsa um hversu sjúkt þetta allt er og hversu meðvirk við erum þegar við kaupum vörur þessara stórfyrirtækja án þess að hugsa okkur um. Ég sjálf hef t.d. ekki borðað McDonald's hamborgara í mörg ár, einfaldlega vegna þess hversu ógeðfellt mér finnst fyrirtækið. Ég hef líka engan skilning á hvernig fólk getur farið svona með dýr, hversu illt það virkilega getur verið. 
Annars finnst mér myndin virkilega vel gerð og áhugaverð, hún er ekki hugsuð sem lausn á neinum vandamálum en er ætlað að opna augu okkar fyrir viðbjóðnum sem er látinn viðgangast. Hún er hvatning þess að neytendur taki ábyrgð og reyni að senda skýr skilaboð um hvernig þeir vilji að maturinn þeirra sé framleiddur.
Mér fannst sérstaklega áhugavert á hversu marga vegu viðfangsefnið var nálgað og hvað við fengum að sjá mismunandi áhrif þess á líf fólks.