Wednesday, October 13, 2010

Food Inc - heimildarmynd

Food Inc er heimildarmynd sem ég sá á kvikmyndahátíð Græna ljóssins í vor og hafði frekar mikil áhrif á mig. Leikstjóri hennar er Robert Kenner sem skrifaði einnig handritið ásamt Elise Pearlstein og Kim Roberts.
Myndin fjallar sem sagt um matvælaiðnaðinn í Bandaríkjunum og hversu mikið hann hefur breyst síðan um miðja 20. öldina, þegar sífellt meiri áhersla var lögð á skyndibita. Myndin sýnir okkur sem sagt skuggahliðar iðnaðarins, allt frá því hversu illa er farin með aumingja dýrin og verkamennina sem vinna í iðnaðinum, til þess hversu skaðlegur maturinn er orðinn okkur þar sem allt snýst um að framleiða sem mest á sem stystum tíma fyrir sem minnstan pening. Viðtöl eru tekin við verkamenn frá Mið-Ameríku og sagt frá erfiðri stöðu þeirra, það er illa farið með þá í vinnunni og þeim borgað allt allt of lítið en samt geta þeir ekki gert neitt í sínum málum því þá verða þeir bara sendir heim til sín þar sem þeir eru flestir ólöglegir innflytjendur. Sem sagt fyrirtækin spara sér fullt af pening með því að vera með þá vinnu og borga þeim lúsarlaun, og taka þarf fram að þeir hafa engin réttindi, eru ekki í neinu verkalýðsfélagi eða neitt, því ef þeir kvarta eru þeir bara reknir.


Dýramisnotkunin sem var sýnd í myndinni hafði svakaleg áhrif á mig og ég var alvarlega farin að pæla í að verða grænmetisæta eftir þetta, það hefur ekki gerst enn, en það kæmi mér ekki á óvart ef það myndi gerast á næstunni. Mynd af stórum akri með mörgum kúm á færiböndum á leið í verksmiðju er oft sýnd og lét mér líða frekar illa, en það sem var eiginlega verst var þegar talað var um meðferðina á kjúklingunum. Mig minnir að það hafi verið heimsótt tvö kjúklingabú, eigandi annars þeirra hafði látið undan kröfum stórfyrirtækisins Tyson Foods Inc að mig minnir, og hafði látið setja einhvers konar plötur á veggina að utanverðu þannig að ekkert sólarljós komst inn eða ferskt loft. Ég vil taka það fram að hann leyfði ekki myndatöku inni í búinu, þar sem það gæti haft slæmar afleiðingar fyrir hann, sem sýnir kannski hvernig aðstæður eru þar og hversu mikil ítök þessi viðbjóðslegu stórfyrirtæki hafa. Hinn eigandinn var kona sem ekki hafði látið segja sér að gera þetta og því höfðu fuglarnir hennar það aðeins betra. Bændurnir verða að gera það sem stórfyrirtækin krefjast því að annars verslar enginn við þá og þeir fara á hausinn, en allar þessar nýjungar kosta sitt og því lenda flestir bændur í svaðalegum vítahring. Um nóttina var svo njósnað um þegar menn komu að ná í kjúklinga, og virðingarleysið var svo mikið að þeir spörkuðu bara í hálf-dauða kjúklinga eins og ekkert væri, og létu það ekkert á sig fá þó svo að þeir görguðu af sársauka.

Þessi mynd segir svo allt sem segja þarf um hina ljótu hliðina á kjúklingakjötsiðnaðinum.

Í myndinni var líka viðtal við konu sem hafði misst son sinn úr E. Coli sýkingu eftir að þau höfðu borðað á einhverjum veitingastað nokkrum dögum áður. Þar er fjallað um hvað það er allt of mikið af sýktu kjöti í umferð og hvað reglur um matvæli eru ekki nógu strangar í Bandaríkjunum. Málið er bara að fyrirtækin hafa mikil ítök innan þingsins. Konan reynir ásamt móður sinni að ná tali af einum þingmanninum, og tekst það að lokum, en hún er að reyna að koma í veg fyrir að aðrir látist af sömu ástæðum og sonur hennar. Þetta sýnir okkur betur hversu mikil áhrif þetta hefur allt á bara venjulegt fólk og maður hefur mikla samúð með henni. 

Tyson að reyna að "friða samviskuna" og fá fleiri kaupendur eftir slæma umfjöllun.


 Myndin fer líka inn á kornræktun í Bandaríkjunum og hversu lítið við vitum í raun og veru um það hvernig maturinn okkar er framleiddur. T.d. eru á matvælaumbúðum oft myndir af einhverjum stórum bóndabýlum umkringd grænu grasi sem á allt að sýna okkur hversu heilnæmt og beint frá bónda maturinn er, en í lang fæstum tilvikum er það rétt. Maturinn er fullur af gerviefnum til að auka rúmfang hans, og í staðinn fyrir að hverfa aftur til fortíðar með framleiðsluna til að losna við vont bragð eða aukaverkanir, er bara fleiri efnum skellt í matinn, og oft án þess að fullnægjandi rannsóknir hafi verið gerðar, vegna þess að það er ÓDÝRARA.



Einnig er komið inn á eitt af helstu vandamálum Bandaríkjanna, þ.e. fátækt vs. offita. En eins og flestir vita er óhollur matur í flestum tilvikum ódýrari en hollur, og sagt er frá fjölskyldu sem kaupir frekar hamborgara heldur en ávexti, einfaldlega vegna þess að þeir eru ódýrari og matarmeiri. Þau hafa ekki efni á hollum og góðum mat, þar sem pabbinn er sykursjúkur, sem er samt sem áður engin tilviljun þar sem hann hefur ekki verið að borða hollan mat, en þau verða að eiga pening fyrir lyfjum fyrir hann og ná að metta fjölskylduna.

Fjölskyldan umrædda

Við fengum líka að kynnast lífrænni ræktun, bæði á grænmeti og dýrum, og fengum að sjá hversu mikil munur er á slátrunaraðferðum og hvað aðferðir lífrænu bóndanna voru mun mannúðlegri. Bóndinn á býlinu sem var heimsótt var mjög sterkur og skemmtilegur karakter sem lífgaði upp á myndina. Kannski fannst mér þessi mynd svona áhugaverð af því að ég hef mikinn áhuga á mat, dýravernd og umhverfismálum en mér finnst að sem flestir ættu að sjá hana, því hún virkilega fær mann til að hugsa um hversu sjúkt þetta allt er og hversu meðvirk við erum þegar við kaupum vörur þessara stórfyrirtækja án þess að hugsa okkur um. Ég sjálf hef t.d. ekki borðað McDonald's hamborgara í mörg ár, einfaldlega vegna þess hversu ógeðfellt mér finnst fyrirtækið. Ég hef líka engan skilning á hvernig fólk getur farið svona með dýr, hversu illt það virkilega getur verið. 
Annars finnst mér myndin virkilega vel gerð og áhugaverð, hún er ekki hugsuð sem lausn á neinum vandamálum en er ætlað að opna augu okkar fyrir viðbjóðnum sem er látinn viðgangast. Hún er hvatning þess að neytendur taki ábyrgð og reyni að senda skýr skilaboð um hvernig þeir vilji að maturinn þeirra sé framleiddur.
Mér fannst sérstaklega áhugavert á hversu marga vegu viðfangsefnið var nálgað og hvað við fengum að sjá mismunandi áhrif þess á líf fólks.







1 comment:

  1. Vönduð og flott færsla. 9 stig

    Ég horfði einmitt á þessa í sumar, og er hjartanlega sammála, hún er ansi mögnuð. Maður reynir að telja sér trú um að aðstæður á Íslandi séu öðruvísi og betri, en ég er ekki viss um að kjúklinga- og svínabúin hér séu mikið skárri (sbr. allar sýkingarnar sem hafa orðið á kjúklingabúum í ár). Ætli maður geti ekki borðað íslenskt lambakjöt með sæmilegri samvisku...

    ReplyDelete