Friday, February 18, 2011

Grave of the Fireflies

Myndin er frá árinu 1988 og er leikstjóri hennar Isao Takahata. Hún er byggð á skáldsögu eftir Akiyuki Nosaka en hún byggir að nokkru leyti á lífi hans sjálfs og er einhvers konar afsöknuarbeiðni til litlu systur hans sem dó úr næringarskorti, en hann kennir sér um dauða hennar. Takahata lagaði hana svo að kvikmyndaforminu og Studio Ghibli sá um teikninguna. Með aðalhlutverkin fara Tsutomu Tatsumi (Seita), Ayano Shiraishi (Setsuko), Yoshiko Shinohara (mamman) og Akemi Yamaguchi (frænkan).



Myndin gerist í Kobe í Japan við lok seinni heimsstyrjaldarinnar og fjallar um hinn unga Seita og litlu systur hans, Setsuko. Sagan er sögð af anda Seita, en hún er einhvers konar ,,flash-back". Seita og Setsuko eiga að passa hús og eigur fjölskyldunnar til þess að hjartveik móðir þeirra geti farið í varnarskýli. Þau lenda í grimmilegri loftárás sem eyðileggur húsið þeirra en þau sleppa ómeidd. Móðir þeirra er hinsvegar ekki jafn heppin og særist illilega, en hún deyr stuttu seinna á sjúkrahúsi. Þau neyðast þá til að flytja til fjarskyldrar frænku þeirra sem sannfærir Seita um að selja kimonoa móður þeirra, en þeir eru það eina sem þau eiga eftir hana, til þess að geta keypt hrísgrjón. Seita fer svo og grefur upp birgðir sem hann hafði falið skömmu fyrir loftárásina og lætur frænku sína fá allt nema dós af ávaxtabrjóstsykrum. Þegar líður á dvölina hjá frænkunni fer hún að verða kaldari í viðmóti, en ástæða þess er að maturinn hjá þeim er að verða af skornum skammti og hún skammar systkinin fyrir að gera ekki neitt í staðinn fyrir uppihaldið.


Þau ákveða þá að fara frá henni og koma sér fyrir í yfirgefnu sprengjuskýli. Þau fylla það af eldflugum en Setsuko fær áfall þegar hún uppgötvar daginn eftir að þær eru allar dánar. Hún grefur þær allar og vill fá útskýringu á því af hverju þær þurftu að deyja og líka af hverju móðir þeirra þurfti að deyja. Þeim gengur frekar vel að lifa við þessar aðstæður til að byrja með, en eftir því sem líður á verður þetta erfiðara og matur af skornari skammti og þau neyðast til að stela. Á endanum deyr Setsuko svo úr næringarskorti og kennir Seita sér um dauða hennar að öllu leyti. Hann brennir hana og geymir öskuna í ávaxtabrjóstsykursdósinni ásamt mynd af föður þeirra og finnst svo dáinn á lestarstöð með dósina í fanginu þann 21. september 1945.



 Það atriði er einnig í byrjun myndarinnar og sýnir þegar andar þeirra koma úr dósinni, þ.a. maður veit í raun og veru allan tímann að þau muni bæði deyja, en það skiptir hvort eð er ekki máli, þ.e. það er engan veginn aðalmálið í myndinni. Mér fannst alveg virkilega átakanlegt þegar hann kemur til baka í skýlið með fullt af mat og finnur Setsuko með óráði, þar sem hún sýgur glerkúlur eins og þær væru ávaxtabrjóstsykur. Það fer síðan eiginlega alveg með mann þegar hún býður honum ,,rice balls" sem eru í rauninni bara drulluklessur.




(þetta atriði er alveg fáránlega sorglegt)



Margir vilja meina að þessi mynd sé anti-stríðsmynd þar sem hún sýnir hinar virkilega ógeðslegu hliðar stríðs á algjörlega saklausa borgara. Hún einbeitir sér líka að því að sýna persónulegar tragedíur sem fylgja stríðum, en ekki hetjulegar og glæsilegar hliðar þeirra (sem eru náttúrulega ekki til). Mér finnst þessi mynd fáránlega góð og virkilega vel gerð. Grafíkin er líka mjög flott miðað við hversu gömul myndin er. Hún hefur djúpstæð áhrif á mann og fær mann til að hugleiða tilgang stríða og allann þann viðbjóð sem þeim fylgir og maður fær hálfgert ógeð á mannfólkinu. Árið 2005 kom svo út leikin mynd sama efnis, til að minnast þess að sextíu ár voru liðin frá lokum Seinni heimsstyrjaldarinnar, og það er örugglega mjög áhugavert að sjá hana líka.


Sunday, February 6, 2011

Micmacs

Micmacs eða Micmacs à tire-larigot er frönsk mynd frá árinu 2009 og er leikstjóri hennar og handritshöfundur Jean-Pierre Jeunet sem er helst þekktur fyrir að hafa leikstýrt myndunum La cité des enfants perdus og Le fabuleux destin d'Amélie Poulain, sem er ein af mínum uppáhalds myndum.

Með aðalhlutverkið fer Dany Boon (Basil) sem nýtur stuðnings margra gæðaleikara, eins og André Dusollier (Nicolas Thibault de Fenouillet), Julie Ferrer (La Môme Caoutchouc) og Omar Sy (Remington) ásamt einhverjum fleiri.



 

Myndin fjallar um Basil, afgreiðslumann á vídeoleigu, sem verður fyrir því óláni að fá byssukúlu í höfuðið kvöld eitt og er ansi nálægt því að deyja. Læknarnir sem hann er sendur til ákveða að skilja kúluna eftir í höfðinu á honum, sem kemur í veg fyrir heilaskaða en veldur því að hann gæti dáið á hverri stundu. Þegar hann svo ætlar að fara aftur í gömlu vinnuna sína, er yfirmaður hans búinn að unga stúlku í hans stað, svo Basil situr uppi atvinnulaus og heimilislaus. Þegar hann er að labba í burtu frá vídeoleigunni hleypur stúlkan á eftir honum og lætur hann hafa skothylki sem hún og kærastinn hennar fundu í dekkinu á mótorhjóli kærastans, eftir að hann hafði sótt hana í vinnunna. Á hylkinu er nafn og merki einhvers fyrirtækis. 




 Seinna þegar Basil er að betla kynnist hann gömlum manni sem kynnir hann fyrir „fjölskyldunni sinni“ sem er samansafn af fólki sem býr saman á ruslahaug og gerir nytsamlega hluti úr ruslinu. Þegar Basil er svo á göngu sér hann byggingu með sama merki og er á hylkinu. Þetta reynist vera bygging vopnaframleiðanda og hann telur sig því nú vera búinn að finna þann sem er ábyrgur fyrir meiðslum hans, og ákveður að ráðast til aðgerða gegn fyrirtækinu. Hann fær „fjölskylduna sína“ í lið með sér og með hjálp þeirra gerir hann fyrirtækinu lífið afar erfitt, og sérstaklega æðsta yfirmanni þess. Í þetta allt blandast svo erkióvinur yfirmannsins: yfirmaður annars vopnaframleiðanda, en þessi fyrirtæki eru í sífelldri samkeppni. Úr þessu verður skemmtilegt sjónarspil, þar sem mikið er um dæmigerðan franskan húmor, en einnig má greina gagnrýni á stórfyritæki og vopnaframleiðendur.




 

Mér fannst myndin bara mjög góð. Persónurnar voru fyndnar og skemmtilegar, og allar mjög ólíkar sem leiddi til skemmtilegs samspils þeirra á milli. Myndir Jeunets eru allar frekar skrýtnar, yfirbragðið er öðruvísi en hjá flestum myndum og var þessi engin undantekning. Mér finnst alltaf mjög gaman að sjá myndir frá öðrum löndum en Bandaríkjunum, þær eru einhvern veginn allt öðruvísi á allan hátt.