Sunday, February 6, 2011

Micmacs

Micmacs eða Micmacs à tire-larigot er frönsk mynd frá árinu 2009 og er leikstjóri hennar og handritshöfundur Jean-Pierre Jeunet sem er helst þekktur fyrir að hafa leikstýrt myndunum La cité des enfants perdus og Le fabuleux destin d'Amélie Poulain, sem er ein af mínum uppáhalds myndum.

Með aðalhlutverkið fer Dany Boon (Basil) sem nýtur stuðnings margra gæðaleikara, eins og André Dusollier (Nicolas Thibault de Fenouillet), Julie Ferrer (La Môme Caoutchouc) og Omar Sy (Remington) ásamt einhverjum fleiri.



 

Myndin fjallar um Basil, afgreiðslumann á vídeoleigu, sem verður fyrir því óláni að fá byssukúlu í höfuðið kvöld eitt og er ansi nálægt því að deyja. Læknarnir sem hann er sendur til ákveða að skilja kúluna eftir í höfðinu á honum, sem kemur í veg fyrir heilaskaða en veldur því að hann gæti dáið á hverri stundu. Þegar hann svo ætlar að fara aftur í gömlu vinnuna sína, er yfirmaður hans búinn að unga stúlku í hans stað, svo Basil situr uppi atvinnulaus og heimilislaus. Þegar hann er að labba í burtu frá vídeoleigunni hleypur stúlkan á eftir honum og lætur hann hafa skothylki sem hún og kærastinn hennar fundu í dekkinu á mótorhjóli kærastans, eftir að hann hafði sótt hana í vinnunna. Á hylkinu er nafn og merki einhvers fyrirtækis. 




 Seinna þegar Basil er að betla kynnist hann gömlum manni sem kynnir hann fyrir „fjölskyldunni sinni“ sem er samansafn af fólki sem býr saman á ruslahaug og gerir nytsamlega hluti úr ruslinu. Þegar Basil er svo á göngu sér hann byggingu með sama merki og er á hylkinu. Þetta reynist vera bygging vopnaframleiðanda og hann telur sig því nú vera búinn að finna þann sem er ábyrgur fyrir meiðslum hans, og ákveður að ráðast til aðgerða gegn fyrirtækinu. Hann fær „fjölskylduna sína“ í lið með sér og með hjálp þeirra gerir hann fyrirtækinu lífið afar erfitt, og sérstaklega æðsta yfirmanni þess. Í þetta allt blandast svo erkióvinur yfirmannsins: yfirmaður annars vopnaframleiðanda, en þessi fyrirtæki eru í sífelldri samkeppni. Úr þessu verður skemmtilegt sjónarspil, þar sem mikið er um dæmigerðan franskan húmor, en einnig má greina gagnrýni á stórfyritæki og vopnaframleiðendur.




 

Mér fannst myndin bara mjög góð. Persónurnar voru fyndnar og skemmtilegar, og allar mjög ólíkar sem leiddi til skemmtilegs samspils þeirra á milli. Myndir Jeunets eru allar frekar skrýtnar, yfirbragðið er öðruvísi en hjá flestum myndum og var þessi engin undantekning. Mér finnst alltaf mjög gaman að sjá myndir frá öðrum löndum en Bandaríkjunum, þær eru einhvern veginn allt öðruvísi á allan hátt.





1 comment: