Monday, January 31, 2011

"I don't hate anybody, not even my interrogators" kvikmyndagrein

Þessi grein eftir David Bordwell fjallar um einn af bestu írönsku kvikmyndagerðarmönnunum, Jafar Panahi. Hann hefur nú verið dæmdur í sex ára fangelsi og má þar að auki ekki vinna við kvikmyndagerð í tuttugu ár. Einnig má hann ekki yfirgefa Íran, né veita fjölmiðlum viðtöl, hvorki innlendum né erlendum. Samstarfsmaður hans, Muhammad Rasoulof, var einnig dæmdur í sex ára fangelsi.




Panahi hefur áður verið dæmdur í fangelsi, árið 2009, fyrir að fara í jarðarför hjá hinni ungu Neda Agha-Soltan sem varð fyrir skoti í mótmælum sama ár. Stuttu seinna var vegabréfið hans svo gert upptækt, og rétt fyrir síðustu handtöku hans var honum meinað að yfirgefa landið til þess að vera viðstaddur kvikmyndahátíðirnar í Berlín og Cannes. Árið 2010 var hann í fangelsi frá mars og fram í maí, og mótmælti þá með því að fara í hungurverkfall. Hann var svo látinn laus gegn tryggingu.

Síðan um miðjan tíunda áratuginn hefur Panahi leikstýrt nokkrum myndum sem allar gagnrýna ýmsar hliðar íransks samfélags, beint eða óbeint. Hann vakti fyrst athygli með myndum með börn í aðalhlutverki, þ.á.m. The White Balloon (1995) og The Mirror (1997). Hins vegar gerist myndin The Circle (2000) í heimi hinna fullorðnu, en hún varpar ljósi á mikilvæg augnablik í lífi nokkurra kvenna á meðan þær ferðast um göturnar. Myndin Offside (2006) fékk mikla athygli, en hún sýnir okkur konur sem dulbúa sig sem karlmenn til þess að geta horft á fóboltaleik. Staða mannréttinda í Íran hefur verið harðlega gagnrýnd, bæði af Írönum, alþjóðlegum mannréttindasinnum, rithöfundum og fleirum. Meintar refsingar sem stangast á við alþjóðlega mannréttindasáttmála eru t.d.: óhóflega harðar refsingar fyrir glæpi; refsingar fyrir samkynhneigð; aftökur glæpamanna yngri en átján ára; hömlur á talfrelsi og fjölmiðlum, t.d. með fangelsun blaðamanna og eins og í þessu dæmi einnig kvikmyndagerðarmanna sem dirfast að gagnrýna Íran.

                                                        
 (The Mirror)

Auðvitað er það ekkert nýtt að banna kvikmyndir og refsa kvikmyndagerðarmönnum, en mál Panahis er mörgum sinnum grófara en áður hefur þekkst: hann er í fangelsi fyrir að vera að undirbúa kvikmynd, en hann var aðeins búinn að taka upp um 30% af henni. Opinberar ákærur á hendur honum eru "Samsöfnun og að vera í leynimakki, með þær fyrirætlanir að fremja glæpi gegn þjóðaröryggi landsins og svo áróður gegn Íslamska lýðveldinu". Írönsk yfirvöld halda því fram að hann og samstarfsmaður hans Rasoulof væru að undirbúa mynd á móti yfirvöldum, sem byggði á mótmælunum eftir forsetakosningarnar árið 2009, en þá efuðust margir um niðurstöður kosninganna. 



Yfirvöld héldu því einnig fram að á heimili Panahis hefðu fundist "klúrar" myndir, en hann sagði sér til málsbóta að þetta hefðu einungis verið klassískar myndir sem hefðu veitt honum innblástur. Mál hans er allt hið undarlegasta og er hann m.a. kærður fyrir brot á reglum sem eru ekki einu sinni til, eins og til dæmis að hafa ekki verið með leyfi til að gera mynd og að hafa ekki látið leikarana sína hafa handrit, sem er gjörsamlega fáránlegt. Mjög líklegt þykir að þessar ásakanir og kærur séu í raun bara ein aðferð til að þagga niður í áberandi persónu sem gagnrýnir íranska ríkið, til þess að hefta útbreiðslu skoðana hans. Lögfræðingur Panahis hefur sagt að máli hans verði áfrýjað, og ég vona að hann verði látinn laus sem fyrst. Kvikmyndir eru mjög mikilvægar til þess að opna augu fólks fyrir t.d. mannréttindabrotum og mismunun eins og í þessu dæmi, og það yrði fáránlegt/hræðilegt ef allir yrðu fangelsaðir sem stuðluðu að víðsýni og heilbrigðri gagnrýni eins og Panahi. 

1 comment: