Tuesday, January 25, 2011

Reservoir Dogs

Reservoir Dogs er frá árinu 1992 og er ein af þessum góðu myndum sem ég ætla alltaf að horfa á en geri það ekki fyrr en löngu, löngu seinna. Quentin Tarantino er leikstjóri myndarinnar og líka handritshöfundur hennar, en þetta er einmitt fyrsta myndin hans í fullri lengd. Myndin var m.a. valin  "Greatest Independent Film of all Time" af Empire, en hún er orðin ein af aðalmyndum sjálfstæðrar kvikmyndagerðar. Helstu leikarar myndarinnar eru Harvey Keitel - Mr. White, Tim Roth - Mr. Orange, Michael Madsen - Mr. Blonde, Steve Buscemi - Mr. Pink, Chris Penn - Nice Guy Eddie Cabot, Lawrence Tierney - Joe Cabot, Edward Bunker - Mr. Blue og svo lék Tarantino sjálfur lítið hlutverk sem Mr. Brown. Ég var sérstaklega hrifin af Harvey Keitel og Tim Roth, fannst þeir leika þetta fáránlega vel og svo voru persónurnar þeirra einnig mjög áhugaverðar en þær þær verða einhvers konar dúó í myndinni.



Myndin segir frá atburðum fyrir og eftir rán, en sýnir ekkert frá atburðinum sjálfum. Joe Cabot ræður til sín fimm menn, sem fá allir dulnefni sem tengjast einhverjum lit, til þess að ræna demöntum. Mennirnir þekkjast ekki, eru mjög ólíkir og með mjög ólíkan bakgrunn. Upphafsatriðið er frekar súrt, þar sem aðalpersónurnar eru allar að borða morgunmat saman á veitingastað og eru m.a. að ræða lagið Like a Virgin með Madonnu. Næsta atriði gerist hins vegar eftir ránið, Mr. White og Mr. Orange eru í bíl á mikilli ferð þar sem Mr. Orange liggur í aftursætinu með skotsár á maganum og Mr. White keyrir bílinn með einni hendi og reynir að hughreysta hann. Þeir fara í yfirgefið vöruhús þar sem gengið ætlaði að hittast eftir ránið. Mr. Pink kemur fljótlega, er frekar taugaóstyrkur og talar endalaust um að einhver í hópnum hafi svikið þá, Mr. Orange er að blæða út hægt og rólega en Mr. White veit ekkert hvað hann á að gera. Við tekur löng, erfið og undarleg bið eftir hinum meðlimunum sem svo felur í sér spennandi og áhugaverða atburðarás.


>

Mér finnst plott myndarinnar mjög gott og alls ekki fyrirsjáanlegt. Það er líka flott hvernig farið er fram og aftur í tíma þegar það á við og til útskýringa. T.d. kynnist maður Mr. Oange og Mr. Blonde betur með þeim hætti, en þeir eru e.t.v. áhugaverðustu persónurnar. Það er líka áhugavert að sjá hvernig persónurnar eru látnar bregðast við aðstæðum, en viðbrögðin eru mjög mismunandi.



 Myndin er frekar hröð, sérstaklega þau atriði sem gerast eftir ránið, og mér finnst það halda spennunni lengur. Hún er líka mjög, mjög töff og persónurnar eru mjög harðar og svalar.  Ég er mjög hrifin af Tarantino sem leikstjóra, og þessi mynd var eiginlega betri en ég bjóst við. Það er mikið um ofbeldi og blótsyrðir, sem er eiginlega eitt af einkennum mynda Tarantinos. Uppáhaldsatriðin mín eru líklegast þegar Mr. Blonde er að fara að kveikja í lögreglumanninum sem hann rændi, og svo lokaatriðið sem er sjúklega epískt og flott.




1 comment:

  1. Það er orðið allt of langt síðan ég sá þessa. Fín færsla. 6 stig.

    ReplyDelete