Monday, January 31, 2011

Adventureland

Adventureland er frá árinu 2009, en leikstjóri hennar og handritshöfundur er Greg Mottola. Hann gerði einnig myndina Superbad sem er eiginlega bara snilld. Með aðalhlutverkin fara Jesse Eisenberg (James Brennan), Kristen Stewart (Em), Ryan Reynolds (Mike Connell), Bill Hader (Bobby), Martin Starr (Joel), Margarita Levieva (Lisa P) og Kristen Wiig (Paulette).




Myndin gerist sumarið 1987 og fjallar um James Brennan sem er nýútskrifaður frá Oberlin College. Hann er að búa sig undir að ferðast um Evrópu um sumarið með besta vini sínum og fara svo í Columbia háskólann um haustið þegar foreldrar hans tilkynna honum að þau hafi ekki lengur efni á að styðja hann fjárhagslega. James neyðist því til þess að hætta við Evrópuferðina og fá sér vinnu til að reyna að safna sér fyrir skólagjöldunum. Hann fær vinnu í skemmtigarðinum Adventureland og vinnur þar við stjórnun á alls konar leikjum, sem þykir víst ekkert sérstaklega flott staða, a.m.k. miðað við þá stöðu að stjórna leiktækjunum.


Í vinnunni kynnist hann mörgum vægast sagt furðulegum manneskjum sem gera myndina líflega og skemmtilega. Þar á meðal er Em, sem er frekar dularfull en áhugaverð, og verður James mjög hrifinn af henni. Fleiri persónur eru t.d. hinn kaldhæðni og undarlegi Joel, svali viðgerðarmaðurinn Connell sem er líka tónlistarmaður og segist hafa spilað með Lou Reed, Lisa P sem allir eru að missa sig yfir og svo Bobby og Paulette sem sjá um garðinn. Þessar persónur hafa allar mikil áhrif á líf James, sem verður frekar skrautlegt þetta sumarið m.v. hvernig líf hans var áður. Innan þessa hóps koma svo upp ýmis dramatísk vandamál og aðstæður, og gaman er að sjá hvernig það þróast allt saman.


(James og Joel)

Mér fannst persónusköpunin mjög góð. Persónurnar koma manni á óvart og voru í raun mun áhugaverðari og fyndnari en ég bjóst við, en það sama gilti einnig um myndina. Mér fannst hún mjög fyndin (það er eitthvað sem ég bjóst eiginlega ekki við) og þá eiginlega sérstaklega Bobby, persóna Bill Hader. Myndin var eiginlega bara mun betri en ég bjóst við að öllu leyti, og komu þá Kristen Stewart og Ryan Reynolds mér mest á óvart, því þau sýndu að þau geta alveg leikið. Ég held að þetta sé ein af þessum myndum sem ég á eftir að geta horft á aftur og aftur, án þess að fá leið á henni.


1 comment: