Made in Dagenham er bresk mynd frá árinu 2010 sem var sýnd í Bíó Paradís í sambandi við Kvennafrídaginn í fyrra. Hún er tæpir tveir tímar og er allt í senn gamanmynd, dramamynd og söguleg mynd. Leikstjóri myndarinnar er Nigel Cole og handritshöfundur er William Ivory. Helstu leikarar eru Sally Hawkins (Rita O'Grady), Bob Hoskins (Albert Passingham), Rosamund Pike (Lisa Hopkins), Andrea Riseborough (Brenda) og Miranda Richardson (Barabara Castle).
Myndin byggir á sögulegu verkfalli 187 saumakvenna hjá Ford fyrirtækinu árið 1968 í Dagenham, Essex, sem leiddi til setningu laga um jöfn laun kvenna og karla fyrir sömu vinnu árið 1970. Myndin fylgir sögunni ekki nákvæmlega, m.a. var aðalpersónan Rita O'Grady búin til og ýmislegu í kringum atburðinn er breytt.
Myndin segir sem sagt frá hópi kvenna sem vinnur á saumastofu Ford-verksmiðjunnar í Dagenham í Bretlandi, þó svo við fylgjumst mest með Ritu O'Grady. Þær eru mjög samheldnar og virðast skemmta sér í vinnunni þrátt fyrir frekar slæma vinnuaðstöðu án loftræstingar og ömurleg laun. Eiginmenn, synir eða bræður margra þeirra vinna einnig hjá fyrirtækinu, en þeir starfa í nýrra húsnæði og hafa mun hærri laun. Konurnar hefðu líklegast sætt sig við aðstæður sínar og haldið áfram vinnu sinni, ef ekki hefði verið fyrir áætlaða breytingu fyrirtækisins á skráningu starfs þeirra, þ.e. að skrá átti þær sem ófaglærða verkamenn. Formaður verkalýðsfélags fyrirtækisins, Albert, verður svo yfir sig hrifinn þegar þær kjósa allar með verkfalli, og að lokum er hin ólíklega Rita valin sem leiðtogi þeirra í baráttunni.
Albert hvetur síðan Ritu til að fara lengra með kröfurnar og krefjast jafnréttis í launamálum. Við tekur erfið barátta, þar sem skiptast á skin og skúrir. Konurnar, ásamt Alberti, lenda í alls konar vandræðum, m.a. missa karlkyns ættingjar þeirra og eiginmenn vinnuna eftir einhvern tíma þar sem engin sæti eru til fyrir bílana.
Persóna Ritu er líklegast sköpuð til þess að auka dramað í myndinni, en einnig til að þjóna hlutverki aðalsöguhetju sem flestar kvikmyndir hafa. Í gegnum hana og aðrar persónur svo sem Lisu Hopkins, konu eins af yfirmönnunum hjá Ford, kynnumst við aðstæðum kvenna á þessum tíma. Fram kemur að þó svo að Lisa sé hámenntuð frá Cambridge og mun klárari en maðurinn hennar þá er hún samt heimavinnandi húsmóðir sem þarf að hugsa vel um manninn sinn. Hún hvetur Ritu áfram þegar hún er að gefast upp og segir henni hversu mikilvægt þetta er fyrir réttindi kvenna. Að lokum fá svo konurnar fund með ráðherranum Barböru Castle.
Það sem mér fannst áhugaverðast við þessa mynd var það að ég hafði aldrei heyrt um þennan atburð, þó svo að í kjölfarið á honum hefði fylgt fjöldinn allur af svipuðum verkföllum, sem leiddu a.m.k. til meira jafnréttis í launamálum... Mér fannst myndin mjög hress og skemmtileg, henni er greinilega ætlað að vera nokkurs konar "feel good" mynd sem heppnast bara mjög vel. Persónurnar voru litríkar, mismunandi og áhugaverðar, og það var mjög áhugavert að sjá aðstæður þeirra og bakgrunn. Mér fannst bara takast frekar vel að halda uppi spennunni í myndinni, þó svo að hún hafi að einhverju leyti verið fyrirsjáanleg.
Fín færsla. 7 stig.
ReplyDelete