Friday, February 18, 2011

Grave of the Fireflies

Myndin er frá árinu 1988 og er leikstjóri hennar Isao Takahata. Hún er byggð á skáldsögu eftir Akiyuki Nosaka en hún byggir að nokkru leyti á lífi hans sjálfs og er einhvers konar afsöknuarbeiðni til litlu systur hans sem dó úr næringarskorti, en hann kennir sér um dauða hennar. Takahata lagaði hana svo að kvikmyndaforminu og Studio Ghibli sá um teikninguna. Með aðalhlutverkin fara Tsutomu Tatsumi (Seita), Ayano Shiraishi (Setsuko), Yoshiko Shinohara (mamman) og Akemi Yamaguchi (frænkan).



Myndin gerist í Kobe í Japan við lok seinni heimsstyrjaldarinnar og fjallar um hinn unga Seita og litlu systur hans, Setsuko. Sagan er sögð af anda Seita, en hún er einhvers konar ,,flash-back". Seita og Setsuko eiga að passa hús og eigur fjölskyldunnar til þess að hjartveik móðir þeirra geti farið í varnarskýli. Þau lenda í grimmilegri loftárás sem eyðileggur húsið þeirra en þau sleppa ómeidd. Móðir þeirra er hinsvegar ekki jafn heppin og særist illilega, en hún deyr stuttu seinna á sjúkrahúsi. Þau neyðast þá til að flytja til fjarskyldrar frænku þeirra sem sannfærir Seita um að selja kimonoa móður þeirra, en þeir eru það eina sem þau eiga eftir hana, til þess að geta keypt hrísgrjón. Seita fer svo og grefur upp birgðir sem hann hafði falið skömmu fyrir loftárásina og lætur frænku sína fá allt nema dós af ávaxtabrjóstsykrum. Þegar líður á dvölina hjá frænkunni fer hún að verða kaldari í viðmóti, en ástæða þess er að maturinn hjá þeim er að verða af skornum skammti og hún skammar systkinin fyrir að gera ekki neitt í staðinn fyrir uppihaldið.


Þau ákveða þá að fara frá henni og koma sér fyrir í yfirgefnu sprengjuskýli. Þau fylla það af eldflugum en Setsuko fær áfall þegar hún uppgötvar daginn eftir að þær eru allar dánar. Hún grefur þær allar og vill fá útskýringu á því af hverju þær þurftu að deyja og líka af hverju móðir þeirra þurfti að deyja. Þeim gengur frekar vel að lifa við þessar aðstæður til að byrja með, en eftir því sem líður á verður þetta erfiðara og matur af skornari skammti og þau neyðast til að stela. Á endanum deyr Setsuko svo úr næringarskorti og kennir Seita sér um dauða hennar að öllu leyti. Hann brennir hana og geymir öskuna í ávaxtabrjóstsykursdósinni ásamt mynd af föður þeirra og finnst svo dáinn á lestarstöð með dósina í fanginu þann 21. september 1945.



 Það atriði er einnig í byrjun myndarinnar og sýnir þegar andar þeirra koma úr dósinni, þ.a. maður veit í raun og veru allan tímann að þau muni bæði deyja, en það skiptir hvort eð er ekki máli, þ.e. það er engan veginn aðalmálið í myndinni. Mér fannst alveg virkilega átakanlegt þegar hann kemur til baka í skýlið með fullt af mat og finnur Setsuko með óráði, þar sem hún sýgur glerkúlur eins og þær væru ávaxtabrjóstsykur. Það fer síðan eiginlega alveg með mann þegar hún býður honum ,,rice balls" sem eru í rauninni bara drulluklessur.




(þetta atriði er alveg fáránlega sorglegt)



Margir vilja meina að þessi mynd sé anti-stríðsmynd þar sem hún sýnir hinar virkilega ógeðslegu hliðar stríðs á algjörlega saklausa borgara. Hún einbeitir sér líka að því að sýna persónulegar tragedíur sem fylgja stríðum, en ekki hetjulegar og glæsilegar hliðar þeirra (sem eru náttúrulega ekki til). Mér finnst þessi mynd fáránlega góð og virkilega vel gerð. Grafíkin er líka mjög flott miðað við hversu gömul myndin er. Hún hefur djúpstæð áhrif á mann og fær mann til að hugleiða tilgang stríða og allann þann viðbjóð sem þeim fylgir og maður fær hálfgert ógeð á mannfólkinu. Árið 2005 kom svo út leikin mynd sama efnis, til að minnast þess að sextíu ár voru liðin frá lokum Seinni heimsstyrjaldarinnar, og það er örugglega mjög áhugavert að sjá hana líka.


2 comments:

  1. vona að þetta sleppi, var alveg búin að gleyma þessu

    ReplyDelete
  2. Flott færsla. 8 stig.

    Merkti mætingu hjá þér fyrir þennan tíma.

    ReplyDelete