Monday, November 29, 2010

You Will Meet a Tall Dark Stranger

Myndin er frá 2010 og leikstjóri og handritshöfundur hennar er Woody Allen. Helstu leikarar eru Naomi Watts, Anthony Hopkins, Frieda Pinto, Gemma Jones, Josh Brolin og Antonio Banderas. 

Myndin gerist í Bretlandi og fjallar um tvö pör, Alfie og Helena og svo Sally og Roy, en Sally er einmitt dóttir Alfie og Helenu. Alfie yfirgefur Helenu til þess að eltast við ungdóminn og neitar því að hann sé gamall. Hann hittir Charmaine, unga konu sem vinnur fyrir sér með vændi, og telur sjálfum sér trú um að hann sé ástfanginn af henni. Þau giftast eftir fáránlega stuttan tíma og einkennist samband þeirra af því að Alfie kaupir allt sem Charmaine langar í en hún heldur honum ungum með því að vera með honum, sem sagt hann er eiginlega að múta henni til að vera með sér.


Helena missir eiginlega vitið við skilnaðinn og Sally dóttir hennar fer að senda hana til gervispákonu sem segir Helenu að líf hennar verði betra í framtíðinni, en þetta er allt gert til þess að láta henni líða betur. Helena er tíður gestur á heimili dóttur sinnar og kemur þangað oftast án þess að láta vita af sér á undan. Þetta fer alveg óstjórnlega mikið í taugarnar á Roy, enda eru þau ekki beint vinir. 


Roy er frekar misheppnaður rithöfundur, fyrsta bókin hans sló í gegn en hann hefur aldrei náð að fylgja henni eftir. Í myndinni er hann að skrifa nýja bók en er allt of oft truflaður af rauðklæddu konunni sem býr í húsinu á móti. Hann verður hugfanginn af henni og fer að fylgjast óhugnanlega mikið með henni þar til einn daginn spyr hann hana hvort hún vilji fá sér hádegismat með honum, sem þau svo gera. Hún er miklu yngri en hann, hann var alveg krípí fyrir en aldursmunurinn gerir þetta bara verra. Í kjölfarið fara þau svo að hittast meira og allt fer í rugl. 


Sally er frekar óhamingjusöm í hjónabandinu og vill að þau Roy fari að halda áfram með líf sitt og eignist börn, en hann er ekki alveg á því. Hún verður skotin í yfirmanni sínum en hann ber ekki sömu tilfinningar til hennar.


Mér fannst myndin bara alveg ágæt. Ég er mjög hrifin af myndum sem innihalda margar persónur og finnst mjög gaman að fylgjast með því hvernig líf þeirra tengjast og flækjast saman, t.d. eins og í Love Actually sem er ein af mínum uppáhaldsmyndum. Persónurnar voru jafn fjölbreyttar og þær voru margar og það var gaman að sjá hvað líf þeirra voru mismunandi. Roy fór alveg sjúklega mikið í taugarnar á mér, fannst hann glataður og ótrúlega pirrandi. Maður vorkenndi Helenu frekar mikið og fannst alveg eðlilegt að Sally væri að senda hana til gervispákonu til þess að róa hana niður og láta henni líða betur.

 Myndin var alveg ágætlega fyndin en mér fannst samt eins og það vantaði eitthvað meira í plottið, það var pínu þurrt.






1 comment:

  1. Sammála. Eins og svo margar síðustu myndir Woody Allen: Þær eru ágætar en manni finnst vanta eitthvað smá upp á að þetta verði virkilega góðar myndir.

    5 stig.

    ReplyDelete