Mikið er af stjörnuleikurum í myndinni og má þar t.d. nefna Liam Neeson, Hugh Grant, Keira Knightley, Bill Nighy, Emma Thompson, Colin Firth, Laura Linney, Billy Bob Thornton, Rowan Atkinson, Claudia Schiffer og fleiri fleiri.
Myndin fylgir átta mjög mismunandi pörum sem eiga það þó sameiginlegt að þurfa að takast á við ástina og þau vandræði sem fylgja henni. Misdjúpt er farið í sögurnar en þær eiga sér allar stað á fimm vikum fyrir einhver jólin í London. Persónurnar eru mjög mismunandi sem gerir söguna skemmtilega og fjölbreytta. Mér finnst sjúklega skemmtilegt að horfa á góðar myndir sem fylgjast með mörgum persónum og þess vegna elska ég þessa mynd, en líka af því að hún er svo jólaleg og krúttleg og maður kemst alltaf í fáránlega gott skap við það að horfa á hana.
Uppáhalds pörin mín voru forsætisráðherrann (Hugh Grant) og Nathalie, Jamie og Aurelia, Sam og Joanna og svo Judy og John.
Forsætisráðherrann er ungur af forsætisráðherra að vera og er frekar flippuð týpa. Nathalie er að vinna í Dowingstræti 10 og sér um að koma með póst og hressingu og eitthvað til hans. Hann heillast af henni en reynir að telja sér trú um að þetta muni aldrei ganga, hún sé yngri en hann og að hann sé forsætisráðherra Bretlands og verði að taka sér tak. Hann lætur færa hana til í starfi þannig að hann hittir hana ekki lengur. En svo á aðfangadag minnir mig er hann að fara í gegnum jólakort sem hún er búin að raða eftir því hver eru best og þá finnur hann að hann er ástfanginn af henni og gengur í hvert einasta hús í götunni hennar til þess að leita að henni. Mér finnst þau tvö mjög skemmtilegar persónur. Hann er flippaður eins og sést í mjög steiktu dansatriði og svo er hann sjúklega kaldhæðinn og hnyttinn, og kemur með brandara og fyndin augnablik sem eru fullkomin fyrir minn húmor. Hún er mjög hress persóna sem á það til að tala af sér og segja aðeins meira en er við hæfi sem er bara fyndið og skemmtilegt.
Kærastan hans Jamie heldur fram hjá honum með bróður hans, svo hann fer til útlanda að skrifa skáldsögu þangað til jólin koma. Þar fer Aurelia sem ekki talar ensku að vinna fyrir hann við að taka til og svoleiðis. Þau geta ekki beint talað mikið saman en undir lokin fara þau að hrífast af hvoru öðru, en þá þarf Jamie einmitt að fara heim til Englands um jólin. Þegar hann kemur heim áttar hann sig almennilega á því að hann er ástfanginn af henni og fer að læra portúgölsku til þess að geta talað við hana, og flýgur svo aftur til hennar og biður hana um að giftast sér. Þessi saga var bara mjög krúttleg og rómantísk og gaman að fylgjast með henni. Colin Firth er mjög góður leikari og persónan hans var pínu vandræðaleg og vissi ekki alveg hvernig hún átti að vera.
Sam er nýbúinn að missa mömmu sína og lokar sig inni í herbergi mestallan daginn. En það er ekki þess vegna sem hann er alltaf einn inni í herbergi, heldur er það út af því að hann er ástfanginn af svölustu stelpunni í skólanum, þ.e. Joanna, og hann heldur að hann eigi enga möguleika á að kynnast henni. Hann ákveður svo að skrá sig sem trommara fyrir tónlistaratriði skólans á jólasýningu grunnskóla hverfisins þó svo að hann kunni ekkert á trommur, þar sem Joanna er aðalsöngkona lagsins. Þegar hún bendir svo á hann á meðan hún syngur all i want for christmas is you þá fer hann að hugsa hvort hann hafi kannski einhverja möguleika. Joanna er samt að fara heim til Bandaríkjanna yfir jólin beint eftir sýninguna, svo stjúppabbi hans fær Sam til að elta hana á flugvöllinn og segja henni hvernig honum líður. Þessi saga var bara mjög sæt og pínu fyndið að sjá svona ungan strák vera að missa sig yfir ástinni.
Allavega er þetta mjög skemmtileg mynd og ég mæli með henni til að koma manni í jólaskapið. Ég horfi a.m.k. á hana á hverju einasta ári fyrir jólin.
Ágæt færsla. Soldið mikil áhersla á plottið, en kannski ekki mikið meira um þessa mynd að segja. 8 stig.
ReplyDelete