Leikstjóri myndarinnar er Mary Katzke og myndin kom út 2009. Hún gerist að mestu leyti í Alaska, í bænum þar sem Gwendelin á heima, en við fylgjum líka Gwendelin í heimsókn til systur sinnar og að leita að mömmu sinni.
Þegar Gwen var 10 mánaða gömul fóru foreldrar hennar með hana í útilegu. Móðir hennar hafði átt erfitt andlega og faðir hennar hótaði að fara með hana á geðsjúkrahús ef hún tæki sér ekki tak. Þetta fór alveg með móðurina sem kastaði Gwen á bálköst sem þau voru búin að kveikja. Gwen brenndist sjúklega illa og það var ekki alveg vitað hvort hún myndi lifa þetta af. Móðir Gwen fór á geðsjúkrahús en eftir þetta afneitaði faðir Gwen konunni sinni sem leiddi til þess að þetta var í síðasta skipti sem Gwen hitti móður sína.
Myndin byrjar á viðtali við Gwen þegar hún er 14 ára, minnir mig, og svo er sýnt þegar hún reyndi að fremja sjálfsmorð 24 ára gömul, 2004. Hún komst nokkurn veginn áfallalaust í gegnum lífið þrátt fyrir þennan hræðilega atburð í æsku sem hefur háð henni mikið, en hérna virðist allur þessi bældi sársauki og vanlíðan bara springa út og hún reynir að fremja sjálfsmorð. Hún er strax greind með geðklofa og ofsóknarkennd og fyllt af dópi, í stað þess að fá almennilega sálfræðimeðferð í tengslum við hræðilega atburðinn í æsku hennar. Hún er flutt að heiman og var í skóla að læra tónlist, en datt út úr skóla eftir sjálfsvígstilraunina. Hún er í mjög litlu sambandi við föður sinn og er mjög einmana, en faðir hennar henti öllum bréfum sem Gwen fékk frá móður sinni þegar hún var lítil. Það sem hún þráir mest í lífinu er að hitta móður sína til að leita svara um atburðinn, eins og af hverju hún gerði þetta, en hún telur að það muni hjálpa sér að komast yfir þetta. Vandamálið er hins vegar að móðir hennar er týnd, en Gwen kemst að því að hún hefur reikað á milli skýla fyrir heimilislausa og geðsjúkrahúsa. Gwen kemst þó í samband við hálfsystur sína, eldri dóttur móður sinnar, sem hún hafði aldrei hitt og það hjálpar henni mikið, hún finnur að einhverjum þykir vænt um hana og vill hitta hana.
(hér sést hægri höndin á henni)
Þessi mynd höfðaði mikið til mín, mér finnst áhugavert að fylgjast með venjulegum manneskjum sem eru samt svo óvenjulegar út af einhverri reynslu sem ekki allir búa yfir. Það er líka hvetjandi að sjá hana halda áfram þrátt fyrir mótlæti og erfiðleika, og að sjá hana bara lifa lífinu yfirleitt þrátt fyrir að eiga svona erfitt andlega. Hún spilar t.d. á bæði gítar og fiðlu en samt er hægri höndin á henni frekar afmynduð.
Mér fannt sumar tökurnar á umhverfinu mjög flottar, sérstaklega í Alaska.
Ég finn ekki trailer, en það er einn hérna á heimasíðu myndarinnar:
http://www.aboutfacefilm.org/