Thursday, September 30, 2010

About Face: The Story of Gwendelin Bradshaw - Riff

Ég vissi ekki alveg við hverju ég átti að búast þegar ég fór á þessa mynd. Ég vissi eiginlega ekki að þetta væri heimildamynd fyrr en svona 5 mín voru búnar af myndinni, finnst pínu steikt að ég hafi haldið að þetta væri bara leikin mynd en jæja...
Leikstjóri myndarinnar er Mary Katzke og myndin kom út 2009. Hún gerist að mestu leyti í Alaska, í bænum þar sem Gwendelin á heima, en við fylgjum líka Gwendelin í heimsókn til systur sinnar og að leita að mömmu sinni.
Þegar Gwen var 10 mánaða gömul fóru foreldrar hennar með hana í útilegu. Móðir hennar hafði átt erfitt andlega og faðir hennar hótaði að fara með hana á geðsjúkrahús ef hún tæki sér ekki tak. Þetta fór alveg með móðurina sem kastaði Gwen á bálköst sem þau voru búin að kveikja. Gwen brenndist sjúklega illa og það var ekki alveg vitað hvort hún myndi lifa þetta af. Móðir Gwen fór á geðsjúkrahús en eftir þetta afneitaði faðir Gwen konunni sinni sem leiddi til þess að þetta var í síðasta skipti sem Gwen hitti móður sína.




Myndin byrjar á viðtali við Gwen þegar hún er 14 ára, minnir mig, og svo er sýnt þegar hún reyndi að fremja sjálfsmorð 24 ára gömul, 2004. Hún komst nokkurn veginn áfallalaust í gegnum lífið þrátt fyrir þennan hræðilega atburð í æsku sem hefur háð henni mikið, en hérna virðist allur þessi bældi sársauki og vanlíðan bara springa út og hún reynir að fremja sjálfsmorð. Hún er strax greind með geðklofa og ofsóknarkennd og fyllt af dópi, í stað þess að fá almennilega sálfræðimeðferð í tengslum við hræðilega atburðinn í æsku hennar. Hún er flutt að heiman og var í skóla að læra tónlist, en datt út úr skóla eftir sjálfsvígstilraunina. Hún er í mjög litlu sambandi við föður sinn og er mjög einmana, en faðir hennar henti öllum bréfum sem Gwen fékk frá móður sinni þegar hún var lítil. Það sem hún þráir mest í lífinu er að hitta móður sína til að leita svara um atburðinn, eins og af hverju hún gerði þetta, en hún telur að það muni hjálpa sér að komast yfir þetta. Vandamálið er hins vegar að móðir hennar er týnd, en Gwen kemst að því að hún hefur reikað á milli skýla fyrir heimilislausa og geðsjúkrahúsa. Gwen kemst þó í samband við hálfsystur sína, eldri dóttur móður sinnar, sem hún hafði aldrei hitt og það hjálpar henni mikið, hún finnur að einhverjum þykir vænt um hana og vill hitta hana.


Við fylgjum Gwen líka á ráðstefnu fyrir fólk sem hefur brennst og hún skemmtir sér mjög vel þar og hefur það gott. Þar kynnist hún fólki sem hefur glímt við sömu vandamál og hún, fólk að horfa og lítil athygli frá hinu kyninu. En um leið og hún kemur heim líður henni aftur illa. Einhvern tímann í myndinni gerir hún aðra tilraun til sjálfsmorðs, man ekki alveg hvenær, sem sýnir bara hvað henni líður illa þrátt fyrir öll þessi lyf sem hún er á, og hvað það liggur á að reyna að finna móður hennar. Hún kemst svo í samband við mann að nafni Emmet sem móðir hennar hafði búið hjá í 7 ár. Hún heldur svo leitinni áfram þar til hún að lokum finnur móður sína. Móðir hennar er afskaplega skrýtin að mínu mati. Þær hanga mikið saman og svo virðist sem þetta hafi hjálpað Gwen mikið, amk fer hún aftur í skólann og heldur góðu sambandi við hálf-systur sína og fjölskyldu hennar.


                                                     (hér sést hægri höndin á henni)

Þessi mynd höfðaði mikið til mín, mér finnst áhugavert að fylgjast með venjulegum manneskjum sem eru samt svo óvenjulegar út af einhverri reynslu sem ekki allir búa yfir. Það er líka hvetjandi að sjá hana halda áfram þrátt fyrir mótlæti og erfiðleika, og að sjá hana bara lifa lífinu yfirleitt þrátt fyrir að eiga svona erfitt andlega. Hún spilar t.d. á bæði gítar og fiðlu en samt er hægri höndin á henni frekar afmynduð.
Mér fannt sumar tökurnar á umhverfinu mjög flottar, sérstaklega í Alaska.

Ég finn ekki trailer, en það er einn hérna á heimasíðu myndarinnar:
http://www.aboutfacefilm.org/

Monday, September 27, 2010

How I Ended This Summer - Riff

How I ended this summer er rússnesk mynd sem gerist á einangraðri eyju í Norður-Íshafinu. Aleksei Popogrebsky  leikstýrir myndinni, en hann skrifar einnig handritið að henni. Sem sagt myndin fjallar um tvo menn sem búa einir á eyju þar sem er einhvers konar rannsóknarstöð eða eitthvað svoleiðis, amk eru þeirr alltaf að mæla hitastig og eitthvað. Sergei er búinn að vera á eyjunni í mörg ár, samt með hléum, og hann og konan hans voru saman þarna fyrir löngu. Hann hefur miklu meiri reynslu af verunni á eyjunni heldur en Pavel sem er kominn til eyjunnar til þess að skrifa ritgerð og að taka þátt í rannsóknarvinnunni. Sambandið á milli þeirra er frekar yfirborðskennt og maður skynjar að Pavel ber mikla virðingu fyrir Sergei enda er hann miklu eldri. Þegar Sergei fer einn daginn að veiða norður-heimsskautssilung í lóni annars staðar á eyjunni er Pavel einn á rannsóknarstofunni í nokkra daga. Einn daginn þegar hann er að fara að lesa upp tölur og fleira í talstöðina eins og þeir gera á hverjum degi, fær hann mikilvæg skilaboð sem varða Sergei. Þegar Sergei kemur til baka hefur Pavel það ekki í sér að segja honum þetta og afgangur myndarinnar fjallar að mestu um samband þeirra, hið erfiða líf á eyjunni og hvort og þá hvernig Pavel á að segja Sergei þessar fréttir.


Ég myndi segja að myndin væri frekar listræn, og mikil áhersla lögð á að sýna náttúruna á eyjunni. Landslagið er kuldalegt og þeir eru alltaf með byssu á sér þegar þeir eru úti ef þeir skyldu mæta ísbirni. Ekki er mikið um tónlist í myndinni og maður veit eiginlega ekki alltaf hvað er í gangi. Einstaka sinnum vantar líka texta, sem hjálpar ekki með skilninginn af því að ég kann ekkert í rússnesku nema da. Ég skildi líka ekkert hvað þetta geislavirka efni var að gera þarna. En jæja... myndin er í heildina mjög flott, sum skotin helst til löng en ég held að þau eigi að vera listræn, og kannski láta mann upplifa það hvernig er að vera þarna, þar sem er eiginlega ekkert að gera, hvað tíminn líður hægt.

Það er í raun ekki mikið meira hægt að segja um þessa mynd. Það er lítið talað í henni og hún er kannski ekki beint skemmtileg, en mér fannst hún áhugaverð og góð að því leiti. Frekar speisað að sjá hvernig þeir búa og hversu einangraðir þeir eru.


Sunday, September 26, 2010

Cyrus - Riff

Cyrus var bara mjög fín mynd, alveg frekar fyndin og svoleiðis en alls ekki með betri myndum sem ég hef séð. Mér finnst Jonah Hill sem leikur Cyrus frekar fyndinn og skemmtilegur leikari, en hann festist kannski svolítið í sama hlutverkinu í þeim myndum sem hann leikur í. Mér fannst  hann samt skila hlutverkinu vel sem hinn óþolandi og stórfurðulegi Cyrus. John C. Reilly er alltaf góður leikari og lék bara mjög vel í þessari mynd. Hann er frekar lúðalegur í útliti sem hjálpar til við túlkun hans á karakternum John. Marisa Tomei lék svo Molly, mömmu Cyrus, og tókst bara vel að sýna hvað Molly var spes. Catherine Keener fer svo með hlutverk fyrrverandi konu Johns, en hún er greinilega líka eini vinur hans. Jay og Mark Duplass leikstýra myndinni í sameiningu og skrifa einnig handritið saman.


Myndin fjallar sem sagt um hinn misheppnaða John, sem er líklega búinn að vera þunglyndur í sjö ár, eða síðan konan hans fór frá honum. Myndin byrjar í partýi þar sem við sjáum samtal á milli Johns og einhverrar konu, og hann er alveg að missa sig í að segja henni frá lífi sínu, hversu ömurlegt það er búið að vera síðustu árin og hvernig hann hefur haft það, en samt er hann að reyna að telja henni trú um að hann sé skemmtilegur og áhugaverður. Þetta er alveg frekar vandræðalegt og konan yfirgefur hann. Hann hittir síðan Molly og hún segist hafa heyrt þetta samtal og hrósar honum fyrir einlægnina. Síðan þegar John er að gera sig að fífli bjargar hún honum með því að gera sig líka að fífli, en einhvern veginn eru þau ekkert að gera sig að fífli þegar þau eru 2 að syngja og dansa því þá fara hinir líka að syngja og dansa, bara ef það er einhver einn sem er öðruvísi og ekki jafn stífur og hinir.
Molly og John byrja að hittast en þegar þau gista þá þarf hún alltaf að fara um nóttina. John eltir hana svo þegar hún fer eina nóttina og endar fyrir utan húsið hennar. Hann sofnar í bílnum en fer síðan aðeins að litast um í kringum húsið hennar þegar hann vaknar. Þar hittir hann svo Cyrus, son Mollyar, sem býður honum inn og fer að spjalla. Cyrus virðist bara vera ágætlega venjulegur í fyrstu, en þegar skórnir hans Johns finnast ekki daginn eftir fer manni að gruna að eitthvað sé ekki í lagi. Eftir þetta fara Cyrus og John að keppast um athygli Mollyar sem á frekar erfitt með að hætta að hugsa um 22 ára son sinn sem lítið barn.


John er frekar venjulegur, einmana maður sem hefur átt mjög erfitt. Maður finnur það næstum strax að hann vill bara að einhver vilji tala við hann og finnist hann áhugaverður, og maður vorkennir honum alveg frekar mikið. Molly hefur ekki mikil samskipti við aðra en Cyrus, og virðist langa til að hafa meiri samskipti við fólk á hennar aldri. Hún og Cyrus eru nær alltaf saman og maður sér það mjög snemma að samband þeirra er eitthvað afbrigðilegt, sérstaklega þegar myndin af henni að gefa honum brjóst þegar hann er orðinn frekar stór er sýnd. Hún er rosalega blind á það að Cyrus þurfi að fullorðnast og sjá um sig sjálfur þar sem hann er alltof háður mömmu sinni. Cyrusi finnst mjög erfitt þegar John kemur inn í líf mömmu sinnar og verður mjög afbrýðissamur þegar hann fær ekki alla hennar athygli. Hann fer að láta mjög barnalega og virðist vera mjög óþroskaður og byrjar að fara frekar mikið í taugarnar á manni en samt er hann fyndinn.

Það sem ég tók aðallega eftir við myndatökuna var þegar einhver persónan var sýnd og svo súmmað frekar hratt inn þegar hún fór að tala eða sýna tilfinningar. Þetta kom pínu undarlega út fannst mér. Tók líka eftir því að húðin á Marisu Tomei var næstum alltaf frekar græn eða gul, sem var líka pínu skrýtið. Annars tók ég ekkert sérstaklega eftir útliti myndarinnar þannig.



Sunday, September 19, 2010

Maraþonmyndin

Við hittumst tveimur dögum fyrir tökudag og reyndum að koma með drög að handriti. Það gekk ekkert sérstaklega vel, fundum upp á einu og einu fyndnu atriði sem pössuðu síðan ekkert saman.
Svo kom grunnhugmyndin daginn eftir og við unnum bara út frá henni á tökudaginn sjálfan.
Á tökudaginn töluðum við fyrist svolítið um myndina, skipulögðum atriðin sem gerast við bekkinn og gerðum textaspjöldin fyrir fyrri hluta myndarinnar. Eins og við mátti búast tóku fyrstu tökurnar lengstan tíma af því að þá vorum við að læra á myndavélina og hvernig væri best að stilla þrífótinn og svona. Það tók líka tíma að skipuleggja hverja töku nánar og svo þurftum við að taka flestar tökurnar oftar en einu sinni, og sérstaklega þessar fyrstu, af því að þá kunnum við ekki alveg inn á hversu langt við þurftum að spóla til baka til þess að klippingin heppnaðist. Við vildum að myndin yrði amk pínu fyndin og súr, en samt líka ágætlega vel gerð miðað við aðstæður. Ég held að þetta hafi tekist ágætlega, seinni hluti myndarinnar er samt óvandaðri en sá fyrri en klukkan var orðin svo margt og við vorum að fara í próf daginn eftir þannig að allir voru frekar stressaðir. Við lentum í smá veseni með að finna tökustað fyrir slaginn af því að þá var orðið svo dimmt úti, en fundum svo þennan fína stað fyrir utan Hagkaup á Eiðistorgi.
Ég bjóst ekki við að þetta tæki svona langan tíma, hélt að þetta yrðu í mesta lagi svona 5 tímar en við vorum ca. 10 tíma að þessu með kvöldmatarpásu. Eyddum líka miklum tíma í að reyna að finna út hvernig við ættum að setja tónlist inn á myndina og að reyna að finna einhverja snúru sem gæti virkað en enduðum svo á því að döbba bara myndina með hljóðnemanum sem kom reyndar betur út en ég bjóst við.
Hinar myndirnar voru mjög fínar og gaman að sjá hvað allar myndirnar voru ólíkar.

Monday, September 13, 2010

The Ghost Writer

Ég fór á The Ghost Writer um helgina, og í heildina fannst mér hún bara nokkuð góð. Með aðalhlutverkin fara Ewan McGregor sem mér hefur alltaf fundist frekar góður, Pierce Brosnan sem ég hef aldrei fílað sérstaklega en var bara ágætur í þssari mynd, Kim Cattrall sem er lúmskt góð leikona og Olivia Williams sem var bara mjög fín í An Education. Hinn umdeildi og vafasami Roman Polanski er leikstjóri myndarinnar en hún er byggð á skáldsögu eftir Robert Harris sem lagaði hana einnig að hvíta tjaldinu.



Roman Polanski er góður leikstjóri, það er bara staðreynd. Þessi mynd er samt ekki beint meistaraverk og alls ekki hans besta verk, en hún er samt mjög spennandi og frekar óvænt. Í stuttu máli fjallar hún um sjálfsævisagnahöfund (ghost writer), sem hefur ekki beint fengið spennandi verkefni upp á síðkastið, en er núna ráðinn til að klára og lagfæra sjálfsævisögu Adams Lang, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands. Það er margt dularfullt við það verkefni en það dularfyllsta er hvernig dauða fyrirrennara hans bar að. Adam Lang býr núna í Bandaríkjunum ásamt konu sinni og aðstoðarmönnum á einangraðri eyju og þangað þarf höfundurinn að flytjast á meðan sjálfsævisagan er skrifuð. Strax á öðrum degi höfundarins á eyjunni er Lang sakaður um að hafa framið stríðsglæpi og þá fara málin að flækjast. Fjölmiðlamenn þyrpast til eyjarinnar og höfundurinn neyðist til að flytja inn til Langs og co. Kona Langs, Ruth, er kaldur og ákveðinn karakter, og maður fær það á tilfinninguna nærri því í upphafi að hún sé í raun klárari og mun betri stjórnmálamaður en maðurinn hennar. Það er greinilega mjög kalt á milli hennar og aðstoðarkonu Langs, og það skapar stundum frekar vandræðalegar aðstæður. Hún leitar í félagsskap höfundarins sem treystir henni og að sama skapi treysta áhorfendur henni.Hann kemst á snoðir um hluti sem hann ætti ekki að vita neitt um og eftir það getur hann ekki hætt að velta sér upp úr hlutunum, og sérstaklega ekki dauða fyrirrennara síns.


Mér finnst pínu skemmtilegt að við komumst aldrei að því hvað höfundurinn heitir en ég tók ekki nærri því strax eftir því. Lúkkið á myndinni er frekar flott, sérstaklega skotin sem eru tekin á eyjunni, bæði inni í húsinu og úti. Húsið er frekar sérkennilegt, kassalaga og kalt og allt er súper ,,stylish" sem gefur því svolítið óhugnanlegt yfirbragð. Flottustu skotin voru svo á ströndinni. Yfirbragðið á þeim er mjög drungalegt, það er alltaf rok og oftast rigning, fáir á ferli og eyjan virkar mjög einangruð.

Það sem fór mest í taugarnar á mér við myndina var lokaatriðið, og þá sérstaklega það sem er akkúrat að gerast á þessari mynd:

Ég vil ekki koma með neinn spoiler, en þetta var bara eitthvað svo fáránlegt og ótrúverðugt. Það myndi klárlega enginn gera svona í alvörunni, nema honum væri bara alveg sama um líf sitt, öryggi og sannleikann. Það getur verið að ég sé að láta þetta trufla mig aðeins of mikið en amk ef ég væri hann hefði ég aldrei gert þetta.

Myndin er klárlega ádeila á Tony Blair og samband hans við Bandaríkin.Utanríkisráðherra Bandaríkjanna í myndinni líkist meira að segja Condolezzu Rice. Myndin deilir líka á ólöglegt fangaflug og ólöglegar pyntingar CIA sem mér finnst frekar gott, það gefur myndinni kannski aðeins meiri dýpt.

The Ghost Writer trailer