Monday, September 27, 2010

How I Ended This Summer - Riff

How I ended this summer er rússnesk mynd sem gerist á einangraðri eyju í Norður-Íshafinu. Aleksei Popogrebsky  leikstýrir myndinni, en hann skrifar einnig handritið að henni. Sem sagt myndin fjallar um tvo menn sem búa einir á eyju þar sem er einhvers konar rannsóknarstöð eða eitthvað svoleiðis, amk eru þeirr alltaf að mæla hitastig og eitthvað. Sergei er búinn að vera á eyjunni í mörg ár, samt með hléum, og hann og konan hans voru saman þarna fyrir löngu. Hann hefur miklu meiri reynslu af verunni á eyjunni heldur en Pavel sem er kominn til eyjunnar til þess að skrifa ritgerð og að taka þátt í rannsóknarvinnunni. Sambandið á milli þeirra er frekar yfirborðskennt og maður skynjar að Pavel ber mikla virðingu fyrir Sergei enda er hann miklu eldri. Þegar Sergei fer einn daginn að veiða norður-heimsskautssilung í lóni annars staðar á eyjunni er Pavel einn á rannsóknarstofunni í nokkra daga. Einn daginn þegar hann er að fara að lesa upp tölur og fleira í talstöðina eins og þeir gera á hverjum degi, fær hann mikilvæg skilaboð sem varða Sergei. Þegar Sergei kemur til baka hefur Pavel það ekki í sér að segja honum þetta og afgangur myndarinnar fjallar að mestu um samband þeirra, hið erfiða líf á eyjunni og hvort og þá hvernig Pavel á að segja Sergei þessar fréttir.


Ég myndi segja að myndin væri frekar listræn, og mikil áhersla lögð á að sýna náttúruna á eyjunni. Landslagið er kuldalegt og þeir eru alltaf með byssu á sér þegar þeir eru úti ef þeir skyldu mæta ísbirni. Ekki er mikið um tónlist í myndinni og maður veit eiginlega ekki alltaf hvað er í gangi. Einstaka sinnum vantar líka texta, sem hjálpar ekki með skilninginn af því að ég kann ekkert í rússnesku nema da. Ég skildi líka ekkert hvað þetta geislavirka efni var að gera þarna. En jæja... myndin er í heildina mjög flott, sum skotin helst til löng en ég held að þau eigi að vera listræn, og kannski láta mann upplifa það hvernig er að vera þarna, þar sem er eiginlega ekkert að gera, hvað tíminn líður hægt.

Það er í raun ekki mikið meira hægt að segja um þessa mynd. Það er lítið talað í henni og hún er kannski ekki beint skemmtileg, en mér fannst hún áhugaverð og góð að því leiti. Frekar speisað að sjá hvernig þeir búa og hversu einangraðir þeir eru.


1 comment:

  1. Fín færsla. 5 stig.

    Evrópska kvikmyndahefðin byggir miklu meira á löngum skotum, eiginlega allt frá upphafi, og þegar maður er vanari bandarískum bíómyndum geta þessi löngu skot stundum verið erfið (og pínu leiðinleg).

    ReplyDelete