Cyrus var bara mjög fín mynd, alveg frekar fyndin og svoleiðis en alls ekki með betri myndum sem ég hef séð. Mér finnst Jonah Hill sem leikur Cyrus frekar fyndinn og skemmtilegur leikari, en hann festist kannski svolítið í sama hlutverkinu í þeim myndum sem hann leikur í. Mér fannst hann samt skila hlutverkinu vel sem hinn óþolandi og stórfurðulegi Cyrus. John C. Reilly er alltaf góður leikari og lék bara mjög vel í þessari mynd. Hann er frekar lúðalegur í útliti sem hjálpar til við túlkun hans á karakternum John. Marisa Tomei lék svo Molly, mömmu Cyrus, og tókst bara vel að sýna hvað Molly var spes. Catherine Keener fer svo með hlutverk fyrrverandi konu Johns, en hún er greinilega líka eini vinur hans. Jay og Mark Duplass leikstýra myndinni í sameiningu og skrifa einnig handritið saman.
Myndin fjallar sem sagt um hinn misheppnaða John, sem er líklega búinn að vera þunglyndur í sjö ár, eða síðan konan hans fór frá honum. Myndin byrjar í partýi þar sem við sjáum samtal á milli Johns og einhverrar konu, og hann er alveg að missa sig í að segja henni frá lífi sínu, hversu ömurlegt það er búið að vera síðustu árin og hvernig hann hefur haft það, en samt er hann að reyna að telja henni trú um að hann sé skemmtilegur og áhugaverður. Þetta er alveg frekar vandræðalegt og konan yfirgefur hann. Hann hittir síðan Molly og hún segist hafa heyrt þetta samtal og hrósar honum fyrir einlægnina. Síðan þegar John er að gera sig að fífli bjargar hún honum með því að gera sig líka að fífli, en einhvern veginn eru þau ekkert að gera sig að fífli þegar þau eru 2 að syngja og dansa því þá fara hinir líka að syngja og dansa, bara ef það er einhver einn sem er öðruvísi og ekki jafn stífur og hinir.
Molly og John byrja að hittast en þegar þau gista þá þarf hún alltaf að fara um nóttina. John eltir hana svo þegar hún fer eina nóttina og endar fyrir utan húsið hennar. Hann sofnar í bílnum en fer síðan aðeins að litast um í kringum húsið hennar þegar hann vaknar. Þar hittir hann svo Cyrus, son Mollyar, sem býður honum inn og fer að spjalla. Cyrus virðist bara vera ágætlega venjulegur í fyrstu, en þegar skórnir hans Johns finnast ekki daginn eftir fer manni að gruna að eitthvað sé ekki í lagi. Eftir þetta fara Cyrus og John að keppast um athygli Mollyar sem á frekar erfitt með að hætta að hugsa um 22 ára son sinn sem lítið barn.
John er frekar venjulegur, einmana maður sem hefur átt mjög erfitt. Maður finnur það næstum strax að hann vill bara að einhver vilji tala við hann og finnist hann áhugaverður, og maður vorkennir honum alveg frekar mikið. Molly hefur ekki mikil samskipti við aðra en Cyrus, og virðist langa til að hafa meiri samskipti við fólk á hennar aldri. Hún og Cyrus eru nær alltaf saman og maður sér það mjög snemma að samband þeirra er eitthvað afbrigðilegt, sérstaklega þegar myndin af henni að gefa honum brjóst þegar hann er orðinn frekar stór er sýnd. Hún er rosalega blind á það að Cyrus þurfi að fullorðnast og sjá um sig sjálfur þar sem hann er alltof háður mömmu sinni. Cyrusi finnst mjög erfitt þegar John kemur inn í líf mömmu sinnar og verður mjög afbrýðissamur þegar hann fær ekki alla hennar athygli. Hann fer að láta mjög barnalega og virðist vera mjög óþroskaður og byrjar að fara frekar mikið í taugarnar á manni en samt er hann fyndinn.
Það sem ég tók aðallega eftir við myndatökuna var þegar einhver persónan var sýnd og svo súmmað frekar hratt inn þegar hún fór að tala eða sýna tilfinningar. Þetta kom pínu undarlega út fannst mér. Tók líka eftir því að húðin á Marisu Tomei var næstum alltaf frekar græn eða gul, sem var líka pínu skrýtið. Annars tók ég ekkert sérstaklega eftir útliti myndarinnar þannig.
Flott færsla. 7 stig.
ReplyDeleteÉg er sammála þér með zoomin, þau virkuðu ekki vel á mig heldur.