Monday, January 31, 2011

"I don't hate anybody, not even my interrogators" kvikmyndagrein

Þessi grein eftir David Bordwell fjallar um einn af bestu írönsku kvikmyndagerðarmönnunum, Jafar Panahi. Hann hefur nú verið dæmdur í sex ára fangelsi og má þar að auki ekki vinna við kvikmyndagerð í tuttugu ár. Einnig má hann ekki yfirgefa Íran, né veita fjölmiðlum viðtöl, hvorki innlendum né erlendum. Samstarfsmaður hans, Muhammad Rasoulof, var einnig dæmdur í sex ára fangelsi.




Panahi hefur áður verið dæmdur í fangelsi, árið 2009, fyrir að fara í jarðarför hjá hinni ungu Neda Agha-Soltan sem varð fyrir skoti í mótmælum sama ár. Stuttu seinna var vegabréfið hans svo gert upptækt, og rétt fyrir síðustu handtöku hans var honum meinað að yfirgefa landið til þess að vera viðstaddur kvikmyndahátíðirnar í Berlín og Cannes. Árið 2010 var hann í fangelsi frá mars og fram í maí, og mótmælti þá með því að fara í hungurverkfall. Hann var svo látinn laus gegn tryggingu.

Síðan um miðjan tíunda áratuginn hefur Panahi leikstýrt nokkrum myndum sem allar gagnrýna ýmsar hliðar íransks samfélags, beint eða óbeint. Hann vakti fyrst athygli með myndum með börn í aðalhlutverki, þ.á.m. The White Balloon (1995) og The Mirror (1997). Hins vegar gerist myndin The Circle (2000) í heimi hinna fullorðnu, en hún varpar ljósi á mikilvæg augnablik í lífi nokkurra kvenna á meðan þær ferðast um göturnar. Myndin Offside (2006) fékk mikla athygli, en hún sýnir okkur konur sem dulbúa sig sem karlmenn til þess að geta horft á fóboltaleik. Staða mannréttinda í Íran hefur verið harðlega gagnrýnd, bæði af Írönum, alþjóðlegum mannréttindasinnum, rithöfundum og fleirum. Meintar refsingar sem stangast á við alþjóðlega mannréttindasáttmála eru t.d.: óhóflega harðar refsingar fyrir glæpi; refsingar fyrir samkynhneigð; aftökur glæpamanna yngri en átján ára; hömlur á talfrelsi og fjölmiðlum, t.d. með fangelsun blaðamanna og eins og í þessu dæmi einnig kvikmyndagerðarmanna sem dirfast að gagnrýna Íran.

                                                        
 (The Mirror)

Auðvitað er það ekkert nýtt að banna kvikmyndir og refsa kvikmyndagerðarmönnum, en mál Panahis er mörgum sinnum grófara en áður hefur þekkst: hann er í fangelsi fyrir að vera að undirbúa kvikmynd, en hann var aðeins búinn að taka upp um 30% af henni. Opinberar ákærur á hendur honum eru "Samsöfnun og að vera í leynimakki, með þær fyrirætlanir að fremja glæpi gegn þjóðaröryggi landsins og svo áróður gegn Íslamska lýðveldinu". Írönsk yfirvöld halda því fram að hann og samstarfsmaður hans Rasoulof væru að undirbúa mynd á móti yfirvöldum, sem byggði á mótmælunum eftir forsetakosningarnar árið 2009, en þá efuðust margir um niðurstöður kosninganna. 



Yfirvöld héldu því einnig fram að á heimili Panahis hefðu fundist "klúrar" myndir, en hann sagði sér til málsbóta að þetta hefðu einungis verið klassískar myndir sem hefðu veitt honum innblástur. Mál hans er allt hið undarlegasta og er hann m.a. kærður fyrir brot á reglum sem eru ekki einu sinni til, eins og til dæmis að hafa ekki verið með leyfi til að gera mynd og að hafa ekki látið leikarana sína hafa handrit, sem er gjörsamlega fáránlegt. Mjög líklegt þykir að þessar ásakanir og kærur séu í raun bara ein aðferð til að þagga niður í áberandi persónu sem gagnrýnir íranska ríkið, til þess að hefta útbreiðslu skoðana hans. Lögfræðingur Panahis hefur sagt að máli hans verði áfrýjað, og ég vona að hann verði látinn laus sem fyrst. Kvikmyndir eru mjög mikilvægar til þess að opna augu fólks fyrir t.d. mannréttindabrotum og mismunun eins og í þessu dæmi, og það yrði fáránlegt/hræðilegt ef allir yrðu fangelsaðir sem stuðluðu að víðsýni og heilbrigðri gagnrýni eins og Panahi. 

Adventureland

Adventureland er frá árinu 2009, en leikstjóri hennar og handritshöfundur er Greg Mottola. Hann gerði einnig myndina Superbad sem er eiginlega bara snilld. Með aðalhlutverkin fara Jesse Eisenberg (James Brennan), Kristen Stewart (Em), Ryan Reynolds (Mike Connell), Bill Hader (Bobby), Martin Starr (Joel), Margarita Levieva (Lisa P) og Kristen Wiig (Paulette).




Myndin gerist sumarið 1987 og fjallar um James Brennan sem er nýútskrifaður frá Oberlin College. Hann er að búa sig undir að ferðast um Evrópu um sumarið með besta vini sínum og fara svo í Columbia háskólann um haustið þegar foreldrar hans tilkynna honum að þau hafi ekki lengur efni á að styðja hann fjárhagslega. James neyðist því til þess að hætta við Evrópuferðina og fá sér vinnu til að reyna að safna sér fyrir skólagjöldunum. Hann fær vinnu í skemmtigarðinum Adventureland og vinnur þar við stjórnun á alls konar leikjum, sem þykir víst ekkert sérstaklega flott staða, a.m.k. miðað við þá stöðu að stjórna leiktækjunum.


Í vinnunni kynnist hann mörgum vægast sagt furðulegum manneskjum sem gera myndina líflega og skemmtilega. Þar á meðal er Em, sem er frekar dularfull en áhugaverð, og verður James mjög hrifinn af henni. Fleiri persónur eru t.d. hinn kaldhæðni og undarlegi Joel, svali viðgerðarmaðurinn Connell sem er líka tónlistarmaður og segist hafa spilað með Lou Reed, Lisa P sem allir eru að missa sig yfir og svo Bobby og Paulette sem sjá um garðinn. Þessar persónur hafa allar mikil áhrif á líf James, sem verður frekar skrautlegt þetta sumarið m.v. hvernig líf hans var áður. Innan þessa hóps koma svo upp ýmis dramatísk vandamál og aðstæður, og gaman er að sjá hvernig það þróast allt saman.


(James og Joel)

Mér fannst persónusköpunin mjög góð. Persónurnar koma manni á óvart og voru í raun mun áhugaverðari og fyndnari en ég bjóst við, en það sama gilti einnig um myndina. Mér fannst hún mjög fyndin (það er eitthvað sem ég bjóst eiginlega ekki við) og þá eiginlega sérstaklega Bobby, persóna Bill Hader. Myndin var eiginlega bara mun betri en ég bjóst við að öllu leyti, og komu þá Kristen Stewart og Ryan Reynolds mér mest á óvart, því þau sýndu að þau geta alveg leikið. Ég held að þetta sé ein af þessum myndum sem ég á eftir að geta horft á aftur og aftur, án þess að fá leið á henni.


Made in Dagenham

Made in Dagenham er bresk mynd frá árinu 2010 sem var sýnd í Bíó Paradís í sambandi við Kvennafrídaginn í fyrra. Hún er tæpir tveir tímar og er allt í senn gamanmynd, dramamynd og söguleg mynd. Leikstjóri myndarinnar er Nigel Cole og handritshöfundur er William Ivory. Helstu leikarar eru Sally Hawkins (Rita O'Grady), Bob Hoskins (Albert Passingham), Rosamund Pike (Lisa Hopkins), Andrea Riseborough (Brenda) og Miranda Richardson (Barabara Castle).

Myndin byggir á sögulegu verkfalli 187 saumakvenna hjá Ford fyrirtækinu árið 1968 í Dagenham, Essex, sem leiddi til setningu laga um jöfn laun kvenna og karla fyrir sömu vinnu árið 1970. Myndin fylgir sögunni ekki nákvæmlega, m.a. var aðalpersónan Rita O'Grady búin til og ýmislegu í kringum atburðinn er breytt.



Myndin segir sem sagt frá hópi kvenna sem vinnur á saumastofu Ford-verksmiðjunnar í Dagenham í Bretlandi, þó svo við fylgjumst mest með Ritu O'Grady. Þær eru mjög samheldnar og virðast skemmta sér í vinnunni þrátt fyrir frekar slæma vinnuaðstöðu án loftræstingar og ömurleg laun. Eiginmenn, synir eða bræður margra þeirra vinna einnig hjá fyrirtækinu, en þeir starfa í nýrra húsnæði og hafa mun hærri laun. Konurnar hefðu líklegast sætt sig við aðstæður sínar og haldið áfram vinnu sinni, ef ekki hefði verið fyrir áætlaða breytingu fyrirtækisins á skráningu starfs þeirra, þ.e. að skrá átti þær sem ófaglærða verkamenn. Formaður verkalýðsfélags fyrirtækisins, Albert, verður svo yfir sig hrifinn þegar þær kjósa allar með verkfalli, og að lokum er hin ólíklega Rita valin sem leiðtogi þeirra í baráttunni.



Albert hvetur síðan Ritu til að fara lengra með kröfurnar og krefjast jafnréttis í launamálum. Við tekur erfið barátta, þar sem skiptast á skin og skúrir. Konurnar, ásamt Alberti, lenda í alls konar vandræðum, m.a. missa karlkyns ættingjar þeirra og eiginmenn vinnuna eftir einhvern tíma þar sem engin sæti eru til fyrir bílana.

Persóna Ritu er líklegast sköpuð til þess að auka dramað í myndinni, en einnig til að þjóna hlutverki aðalsöguhetju sem flestar kvikmyndir hafa. Í gegnum hana og aðrar persónur svo sem Lisu Hopkins, konu eins af yfirmönnunum hjá Ford, kynnumst við aðstæðum kvenna á þessum tíma. Fram kemur að þó svo að Lisa sé hámenntuð frá Cambridge og mun klárari en maðurinn hennar þá er hún samt heimavinnandi húsmóðir sem þarf að hugsa vel um manninn sinn. Hún hvetur Ritu áfram þegar hún er að gefast upp og segir henni hversu mikilvægt þetta er fyrir réttindi kvenna. Að lokum fá svo konurnar fund með ráðherranum Barböru Castle.


Það sem mér fannst áhugaverðast við þessa mynd var það að ég hafði aldrei heyrt um þennan atburð, þó svo að í kjölfarið á honum hefði fylgt fjöldinn allur af svipuðum verkföllum, sem leiddu a.m.k. til meira jafnréttis í launamálum... Mér fannst myndin mjög hress og skemmtileg, henni er greinilega ætlað að vera nokkurs konar "feel good" mynd sem heppnast bara mjög vel. Persónurnar voru litríkar, mismunandi og áhugaverðar, og það var mjög áhugavert að sjá aðstæður þeirra og bakgrunn. Mér fannst bara takast frekar vel að halda uppi spennunni í myndinni, þó svo að hún hafi að einhverju leyti verið fyrirsjáanleg.


Tuesday, January 25, 2011

Reservoir Dogs

Reservoir Dogs er frá árinu 1992 og er ein af þessum góðu myndum sem ég ætla alltaf að horfa á en geri það ekki fyrr en löngu, löngu seinna. Quentin Tarantino er leikstjóri myndarinnar og líka handritshöfundur hennar, en þetta er einmitt fyrsta myndin hans í fullri lengd. Myndin var m.a. valin  "Greatest Independent Film of all Time" af Empire, en hún er orðin ein af aðalmyndum sjálfstæðrar kvikmyndagerðar. Helstu leikarar myndarinnar eru Harvey Keitel - Mr. White, Tim Roth - Mr. Orange, Michael Madsen - Mr. Blonde, Steve Buscemi - Mr. Pink, Chris Penn - Nice Guy Eddie Cabot, Lawrence Tierney - Joe Cabot, Edward Bunker - Mr. Blue og svo lék Tarantino sjálfur lítið hlutverk sem Mr. Brown. Ég var sérstaklega hrifin af Harvey Keitel og Tim Roth, fannst þeir leika þetta fáránlega vel og svo voru persónurnar þeirra einnig mjög áhugaverðar en þær þær verða einhvers konar dúó í myndinni.



Myndin segir frá atburðum fyrir og eftir rán, en sýnir ekkert frá atburðinum sjálfum. Joe Cabot ræður til sín fimm menn, sem fá allir dulnefni sem tengjast einhverjum lit, til þess að ræna demöntum. Mennirnir þekkjast ekki, eru mjög ólíkir og með mjög ólíkan bakgrunn. Upphafsatriðið er frekar súrt, þar sem aðalpersónurnar eru allar að borða morgunmat saman á veitingastað og eru m.a. að ræða lagið Like a Virgin með Madonnu. Næsta atriði gerist hins vegar eftir ránið, Mr. White og Mr. Orange eru í bíl á mikilli ferð þar sem Mr. Orange liggur í aftursætinu með skotsár á maganum og Mr. White keyrir bílinn með einni hendi og reynir að hughreysta hann. Þeir fara í yfirgefið vöruhús þar sem gengið ætlaði að hittast eftir ránið. Mr. Pink kemur fljótlega, er frekar taugaóstyrkur og talar endalaust um að einhver í hópnum hafi svikið þá, Mr. Orange er að blæða út hægt og rólega en Mr. White veit ekkert hvað hann á að gera. Við tekur löng, erfið og undarleg bið eftir hinum meðlimunum sem svo felur í sér spennandi og áhugaverða atburðarás.


>

Mér finnst plott myndarinnar mjög gott og alls ekki fyrirsjáanlegt. Það er líka flott hvernig farið er fram og aftur í tíma þegar það á við og til útskýringa. T.d. kynnist maður Mr. Oange og Mr. Blonde betur með þeim hætti, en þeir eru e.t.v. áhugaverðustu persónurnar. Það er líka áhugavert að sjá hvernig persónurnar eru látnar bregðast við aðstæðum, en viðbrögðin eru mjög mismunandi.



 Myndin er frekar hröð, sérstaklega þau atriði sem gerast eftir ránið, og mér finnst það halda spennunni lengur. Hún er líka mjög, mjög töff og persónurnar eru mjög harðar og svalar.  Ég er mjög hrifin af Tarantino sem leikstjóra, og þessi mynd var eiginlega betri en ég bjóst við. Það er mikið um ofbeldi og blótsyrðir, sem er eiginlega eitt af einkennum mynda Tarantinos. Uppáhaldsatriðin mín eru líklegast þegar Mr. Blonde er að fara að kveikja í lögreglumanninum sem hann rændi, og svo lokaatriðið sem er sjúklega epískt og flott.