Wednesday, April 6, 2011

The Last King of Scotland

 The Last King of Scotland er bresk mynd frá árinu 2006 og er leikstjóri hennar Kevin Macdonald en handritshöfundar Peter Morgan og Jeremy Brock. Myndin er byggð á skáldsögu eftir blaðamanninn Giles Foden sem fjallar um ris úganska forsetans Idi Amin og einræðisstjórn hans frá 1971-1979, en sagan er sögð sem minningar ungs læknis, Nicholas Garrigan, sem er tilbúin persóna. Með aðalhlutverkin fara Forest Whitaker sem Idi Amin, James McAvoy sem ungi læknirinn og Gillian Anderson sem kona sem læknirinn hrífst af.


Myndin byrjar í Skotlandi árið 1970 þegar Nicholas er að útskrifast úr læknisfræði. Faðir hans er búinn að ákveða að hann eigi að starfa í læknamiðstöð fjölskyldunnar í þorpinu. Honum líst vægast sagt illa á það og ákveður í staðinn að leita að smá ævintýri og fer að starfa á sjálfboðaliðalæknamiðstöð í Úganda. Þar starfa Dr. David Merrit og konan hans Sarah sem Nicholas laðast fljótlega að, en hún neitar að halda framhjá þó svo að hún sé ekki ósátt með athyglina. Hershöfðinginn Idi Amin er á þessum tíma að takast valdarán þar sem hann er að steypa sitjandi forseta af stóli. Amin lendir í minniháttar bílslysi en Nicholas er einmitt sá sem hlúir að honum og þannig kynnast þeir. Amin dýrkar Skotland og verður yfir sig hrifinn þegar hann kemst að þjóðerni Nicholasar og þeir skiptast á bolum þar sem Nicholas er í "Scotland" bol.




 Nokkrum dögum seinna býður Amin Nicholasi að verða hans persónulegi læknir og að taka þátt í að endurbæta heilbrigðiskerfi landsins, en þetta er tilboð þar sem ekki er í boði að neita. Nicholas verður fljótlega einn af helstu ráðgjöfum Amin sem leitar einnig til hans í trúnaði. Hann fer fljótlega að gera sér grein fyrir að Amin er ekkert betri en hinn forsetinn en ákveður amk til að byrja með að líta framhjá því. Hann fer svo að hafa meiri áhyggjur eftir því sem paranoia og harka forsetans eykst. Nicholas á í sambandi við Kay, eina af þremur konum Amin. Þegar Amin svo kemst að þessum svikum verður allt brjálað og Kay er myrt og lík hennar limlest. Amin skipti breska vegabréfi Nicholasar út fyrir vegabréf frá Úganda, til að koma í veg fyrir að hann flýji. Breska sendiráðið vill aðeins hjálpa Nicholasi ef hann, með sín tengsl, myrðir forsetann.


Mér fannst þessi mynd alveg virkilega, virkilega góð og leikur Whitaker stóð algjörlega upp úr, enda fékk hann einmitt óskarinn fyrir frammistöðu sína árið 2007. James McAvoy leikur einnig mjög vel.
Þetta er mjög óhugguleg saga og oft mjög óþægileg mynd að horfa á. Hún sýnir vel ris og fall Amins og hversu geðveikur hann var orðinn undir lokin, og gefur raunsæja mynd af ástandinu í Úganda á þessum tíma. Mér fannst mjög áhugavert að fá smá innsýn inn í málefni og sögu Afríku.
Myndin er spennandi og frekar óútreiknanleg, maður veit aldrei alveg hvað gerist næst. Svo eru persónurnar  áhugaverðar og stöður þeirra skemmtilegar andstæður. Ég mæli sterklega með þessari mynd og finnst hún eiginlega vera skylduáhorf.

Kurteist fólk

Kurteist fólk er blanda af gamanmynd og dramamynd, en leikstjóri hennar er Olaf de Fleur Jóhannesson og handritshöfundar Olaf de Fleur og Hrafnkell Stefánsson. Með aðalhlutverkið fer Stefán Karl Stefánsson, Ágústa Eva Erlendsdóttir, Hilmir Snær Guðnason, Eggert Þorleifsson, Halldóra Geirharðsdóttir og Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir.

Myndin gerist í Reykjavík og Búðardal, en hinn misheppnaði verkfræðingur Lárus Skjaldarson hefur verið ráðinn til að gera upp gamalt sláturhús í Búðardal af gömlum vini föður hans sem er sveitarstjórinn á staðnum og á verktakafyrirtæki. Samband hans og foreldra hans er mjög slæmt en þegar myndin byrjar liggur faðir hans á dánarbeðinu. Við fáum að sjá frá æsku hans með nokkrum senum úr fortíðinni og þar kemur fram að foreldrar hans hafa ekki beint verið bestu foreldrar í heimi. Yfirmaður Lárusar er svo að halda framhjá með konunni hans og endar það bæði með því að Lárus er rekinn og konan hans fer að búa með fyrrverandi yfirmanni hans, en þau eiga tvö börn saman.
Lárus er frekar drykkfelldur eins og foreldrar hans og við sjáum hann oft keyra undir áhrifum.
Þegar hann kemur vestur eru aðstæður þar mjög spes, mikill klíkuskapur er í stjórnmálum á staðnum þar sem bankastjórinn, þingmaðurinn, mjólkurbússtjórinn og sveitarstjórinn eru í aðalhlutverkum. Þegar hann á að fara að gera þetta sláturhús eru hlutirnir mjög skrýtnir og ekkert er komið á hreint, ekki einu sinni fjármögnunin og við sjáum þetta allt fara út um þúfur. Lárus kynnist Margréti sem er kennari á svæðinu og þau hefja samband sem endist bara í 10 daga þar sem mjólkurbússtjórinn, sem var að halda framhjá konunni sinni með Margréti og 2 öðrum konum, verður afbrýðissamur.

Það var mjög áhugavert að sjá alla þessa spillingu og þennan valdaleik á svona litlum stað og menn alltaf að hampa kunningjum og vinum og gera þeim ýmsa greiða sem eru frekar loðnir lagalega séð. Þetta gefur manni kannski ágæta mynd af því hvernig þetta er í raun og veru í svona litlum plássum á Íslandi, amk efast ég ekki um að þetta sé svona víða.
Mér fannst myndin mjög vel leikin og persónurnar mjög áhugaverðar og raunverulegar. Myndin sýnir frekar vel ömurlegan raunveruleika og við fáum að sjá fólk bregðast við ólíkum áföllum á sinn hátt. Myndin var tiltölulega skemmtilega tekin, t.d. þegar hann situr inni í bílnum og það eru dropar á rúðunni, en þá er samt bara tekið í gegnum rúðuna.

Þessi mynd kom mér mjög á óvart því ég verð að segja að ég hafði gjörsamlega engar væntingar til hennar. Hún var pínu þessi klassíska íslenska kvikmynd sem er samt frekar skemmtileg líka, ekki bara skrýtin. Hún var frekar steikt sem er bara betra, sérstaklega þegar hann brýst bara inn í kaupfélagið og stelur kókómjjólk í lítratali, og þegar hann og sveitarstjórinn sitja á gólfinu þar og eru að muncha eftir að hafa brotist þar inn, og að sjálfsögðu með 2 lítra af kókómjólk.





Lokaverkefnin

Mér fannst lokaverkefnin öll vel heppnuð og gaman hvað þau voru fjölbreytt. Það er alltaf gaman að sjá hvað fólk fær mismunandi hugmyndir og hvernig það nær að útfæra þær.
Við gerð okkar myndar notuðum við í fyrsta skipti söguútlínu almennilega. Þó svo að það bættust einhverjar senur við í tökum þá hjálpaði samt að hafa þessa söguútlínu því það sparaði tíma, hjálpaði til með skipulagningu, auðveldaði okkur að klippa og gerði þetta bara allt saman einfaldara.
Við kunnum mikið betur á myndavélina núna og gátum til dæmis stillt hversu miklu ljósi var hleypt inn og svoleiðis fyrir útisenurnar. Við gleymdum því samt með eina senu en það var allt í lagi af því að sú sena, senan með haglélinu, átti að sýna hvað Marta var orðin geðveikt og þess vegna gæti þetta hafa verið einhvers konar túlkun á því. Í 2-3 senum gleymdum við hreinlega að tengja micinn sem varð til þess að hljóðið í þeim senum varð örlítið lægra og heyrðist ekki þegar myndin var spiluð í full screen, en hins vegar heyrðist það alveg þegar hún var spiluð í litla glugganum. Við lentum í algjöru veseni með að exporta myndina úr forritinu og mér sýndist af því sem ég las á netinu að margir væru í sömu erfiðleikum og að það þyrfti að gera eitthvað við tölvuna til að laga þetta en við þorðum ekkert að vera að fikta í henni.
Það gekk ljómandi vel að klippa og setja tónlist inn á myndina þó svo að við hefðum notað iMovie og ekkert okkar hafði kynnst því neitt áður. Við sáum samt alveg að það forrit var ekkert sérstaklega pro (annað en Final cut pro hoho), t.d. af því að það var lítið um transitions og þannig en það var bara svo gríðarlega aðgengilegt og mér fannst sérstaklega einfalt að skella tónlistinni inn.
Það var bara mjög gaman að gera þessa mynd, sérstaklega kannski af því að flest gekk mjög vel, fyrir utan þegar við ætluðum að setja myndina inn með Final cut pro, það virkaði bara ekki, en virkaði strax með iMovie.
Þannig að þetta var í heildina bara mjög góð reynsla og gaman að þessu og ég hefði kannski viljað gera eina stuttmynd í viðbót á árinu.

Monday, April 4, 2011

Kvikmyndagerð 2010-2011

Þetta fag er búið að vera mjög áhugavert og skemmtilegt. Það sem mér finnst best við það er m.a. allar myndirnar sem maður er búinn að sjá og hefði kannski ekki annars séð. Erum líka búin að horfa á slatta af myndum sem hafa verið á listanum mínum yfir must see myndir í nokkur ár. Það sem var líka best var að gera stuttmyndirnar. Þó svo að það hafi oft fylgt mikið vesen þá var þetta mjög gaman og mér fannst ég læra mest af þessu. Ég verð samt að segja að Final Cut Pro er leiðinlega flókið forrit sem orsakaði oft mikinn pirring og gríðarlega tímaeyðslu. Ég hefði annað hvort viljað kunna betur á það eða fá að nota eitthvað þægilegra forrit (notuðum náttúrulega iMovie núna). Það hefði verið gott að gera fleiri myndir og ýta þá burt einhverju af FDF. Mér finnst ég ekki hafa lært neitt sérstaklega mikið af því, fínt að skoða grunnatriðin og það allt, en maður lærir bara miklu meira á því að gera þetta í alvörunni.

Mér finnst mjög sniðugt að láta okkur fara á íslenskar myndir og tala svo við leikstjórann. Það gefur manni smá hugmynd um hvernig það er að vera kvikmyndagerðarmaður, hvernig þetta fer allt fram og hvernig "bransinn" er á Íslandi.

Það er kannski heldur mikið af bloggstigum, sérstaklega eftir jól þar sem við erum að reyna að einbeita okkur að stúdentsprófunum en þetta var samt allt í lagi. Maður myndi örugglega nenna að blogga betri blogg ef það væru aðeins færri stig og já örugglega kommenta meira ef maður fengi smá stig fyrir það. Ég held að það væri ekki sniðugt að vera harðari á skiladögum á stuttmyndunum af því að það er svo auðvelt að lenda í alls konar veseni í kringum þær eins og við fengum að kynnast með heimildamyndina okkar. Held að það gæti alveg virkað að hóparnir hefðu mismunandi frumsýningardaga en veit ekkert hvort það er betra eða ekki.

Væntingar mínar voru að þetta væri kannski aðeins rólegra fag, svona fag til að fá að gera eitthvað annað en endalaust bóklegt. Það stóðst samt alveg að einhverju leyti, kannski fyrir utan þetta FDF dæmi allt, bjóst ekki beint við því.