Wednesday, April 6, 2011

Kurteist fólk

Kurteist fólk er blanda af gamanmynd og dramamynd, en leikstjóri hennar er Olaf de Fleur Jóhannesson og handritshöfundar Olaf de Fleur og Hrafnkell Stefánsson. Með aðalhlutverkið fer Stefán Karl Stefánsson, Ágústa Eva Erlendsdóttir, Hilmir Snær Guðnason, Eggert Þorleifsson, Halldóra Geirharðsdóttir og Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir.

Myndin gerist í Reykjavík og Búðardal, en hinn misheppnaði verkfræðingur Lárus Skjaldarson hefur verið ráðinn til að gera upp gamalt sláturhús í Búðardal af gömlum vini föður hans sem er sveitarstjórinn á staðnum og á verktakafyrirtæki. Samband hans og foreldra hans er mjög slæmt en þegar myndin byrjar liggur faðir hans á dánarbeðinu. Við fáum að sjá frá æsku hans með nokkrum senum úr fortíðinni og þar kemur fram að foreldrar hans hafa ekki beint verið bestu foreldrar í heimi. Yfirmaður Lárusar er svo að halda framhjá með konunni hans og endar það bæði með því að Lárus er rekinn og konan hans fer að búa með fyrrverandi yfirmanni hans, en þau eiga tvö börn saman.
Lárus er frekar drykkfelldur eins og foreldrar hans og við sjáum hann oft keyra undir áhrifum.
Þegar hann kemur vestur eru aðstæður þar mjög spes, mikill klíkuskapur er í stjórnmálum á staðnum þar sem bankastjórinn, þingmaðurinn, mjólkurbússtjórinn og sveitarstjórinn eru í aðalhlutverkum. Þegar hann á að fara að gera þetta sláturhús eru hlutirnir mjög skrýtnir og ekkert er komið á hreint, ekki einu sinni fjármögnunin og við sjáum þetta allt fara út um þúfur. Lárus kynnist Margréti sem er kennari á svæðinu og þau hefja samband sem endist bara í 10 daga þar sem mjólkurbússtjórinn, sem var að halda framhjá konunni sinni með Margréti og 2 öðrum konum, verður afbrýðissamur.

Það var mjög áhugavert að sjá alla þessa spillingu og þennan valdaleik á svona litlum stað og menn alltaf að hampa kunningjum og vinum og gera þeim ýmsa greiða sem eru frekar loðnir lagalega séð. Þetta gefur manni kannski ágæta mynd af því hvernig þetta er í raun og veru í svona litlum plássum á Íslandi, amk efast ég ekki um að þetta sé svona víða.
Mér fannst myndin mjög vel leikin og persónurnar mjög áhugaverðar og raunverulegar. Myndin sýnir frekar vel ömurlegan raunveruleika og við fáum að sjá fólk bregðast við ólíkum áföllum á sinn hátt. Myndin var tiltölulega skemmtilega tekin, t.d. þegar hann situr inni í bílnum og það eru dropar á rúðunni, en þá er samt bara tekið í gegnum rúðuna.

Þessi mynd kom mér mjög á óvart því ég verð að segja að ég hafði gjörsamlega engar væntingar til hennar. Hún var pínu þessi klassíska íslenska kvikmynd sem er samt frekar skemmtileg líka, ekki bara skrýtin. Hún var frekar steikt sem er bara betra, sérstaklega þegar hann brýst bara inn í kaupfélagið og stelur kókómjjólk í lítratali, og þegar hann og sveitarstjórinn sitja á gólfinu þar og eru að muncha eftir að hafa brotist þar inn, og að sjálfsögðu með 2 lítra af kókómjólk.





1 comment: