The Last King of Scotland er bresk mynd frá árinu 2006 og er leikstjóri hennar Kevin Macdonald en handritshöfundar Peter Morgan og Jeremy Brock. Myndin er byggð á skáldsögu eftir blaðamanninn Giles Foden sem fjallar um ris úganska forsetans Idi Amin og einræðisstjórn hans frá 1971-1979, en sagan er sögð sem minningar ungs læknis, Nicholas Garrigan, sem er tilbúin persóna. Með aðalhlutverkin fara Forest Whitaker sem Idi Amin, James McAvoy sem ungi læknirinn og Gillian Anderson sem kona sem læknirinn hrífst af.
Myndin byrjar í Skotlandi árið 1970 þegar Nicholas er að útskrifast úr læknisfræði. Faðir hans er búinn að ákveða að hann eigi að starfa í læknamiðstöð fjölskyldunnar í þorpinu. Honum líst vægast sagt illa á það og ákveður í staðinn að leita að smá ævintýri og fer að starfa á sjálfboðaliðalæknamiðstöð í Úganda. Þar starfa Dr. David Merrit og konan hans Sarah sem Nicholas laðast fljótlega að, en hún neitar að halda framhjá þó svo að hún sé ekki ósátt með athyglina. Hershöfðinginn Idi Amin er á þessum tíma að takast valdarán þar sem hann er að steypa sitjandi forseta af stóli. Amin lendir í minniháttar bílslysi en Nicholas er einmitt sá sem hlúir að honum og þannig kynnast þeir. Amin dýrkar Skotland og verður yfir sig hrifinn þegar hann kemst að þjóðerni Nicholasar og þeir skiptast á bolum þar sem Nicholas er í "Scotland" bol.
Nokkrum dögum seinna býður Amin Nicholasi að verða hans persónulegi læknir og að taka þátt í að endurbæta heilbrigðiskerfi landsins, en þetta er tilboð þar sem ekki er í boði að neita. Nicholas verður fljótlega einn af helstu ráðgjöfum Amin sem leitar einnig til hans í trúnaði. Hann fer fljótlega að gera sér grein fyrir að Amin er ekkert betri en hinn forsetinn en ákveður amk til að byrja með að líta framhjá því. Hann fer svo að hafa meiri áhyggjur eftir því sem paranoia og harka forsetans eykst. Nicholas á í sambandi við Kay, eina af þremur konum Amin. Þegar Amin svo kemst að þessum svikum verður allt brjálað og Kay er myrt og lík hennar limlest. Amin skipti breska vegabréfi Nicholasar út fyrir vegabréf frá Úganda, til að koma í veg fyrir að hann flýji. Breska sendiráðið vill aðeins hjálpa Nicholasi ef hann, með sín tengsl, myrðir forsetann.
Mér fannst þessi mynd alveg virkilega, virkilega góð og leikur Whitaker stóð algjörlega upp úr, enda fékk hann einmitt óskarinn fyrir frammistöðu sína árið 2007. James McAvoy leikur einnig mjög vel.
Þetta er mjög óhugguleg saga og oft mjög óþægileg mynd að horfa á. Hún sýnir vel ris og fall Amins og hversu geðveikur hann var orðinn undir lokin, og gefur raunsæja mynd af ástandinu í Úganda á þessum tíma. Mér fannst mjög áhugavert að fá smá innsýn inn í málefni og sögu Afríku.
Myndin er spennandi og frekar óútreiknanleg, maður veit aldrei alveg hvað gerist næst. Svo eru persónurnar áhugaverðar og stöður þeirra skemmtilegar andstæður. Ég mæli sterklega með þessari mynd og finnst hún eiginlega vera skylduáhorf.
Sammála. Whitaker er alveg magnaður í þessari. Fín færsla. 6 stig.
ReplyDelete